Viðhorf Lögreglan í Reykjavík, saksóknari og ríkislögreglustjóri sameinast sem sjaldan fyrr til að slá leyndarhjúp um meint brot lögreglumanns sem nú situr í gæsluvarðhaldi. Lögreglan lætur sem hún eigi málið, það sé hennar eign, hennar allt.
Af langri reynslu veit ég að blaðamenn og fréttamenn berjast við að fá upplýsingar um málið. Þeir tala við heimildarmenn innan embættanna, reyna að safna saman brotum um málið í viðleitni sinni til að segja okkur fréttir af eðli málsins, hver brotin voru, hvernig rannsókn miðar, hvaða afleiðingar þau höfðu, hafði lögreglumaðurinn áhrif á mörg mál, hafa einhver þeirra verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og ef, þá hver? Hafa einhver farið í gegnum dómstóla, er búið að dæma í þeim, hverjar urðu málalyktir? Eða snýst málið um eitthvað allt annað en leka?
Má vera að lögreglumanninum hafi verið hótað? Þá hverju? Meiðingum, eða þaðan af verra?
Þessar spurningar og margar aðrar eru bornar undir yfirmenn lögregluembættanna og saksóknara hvern dag. Engin svör. Aðeins leynd.
Ég gef mér að fjölmiðlar láti ekki af upplýsingaskyldu sinni þó formælendur embættanna, sem að koma, segi nei.
Ástæða þess að einstaka starfsmenn ritstjórna sinna málaflokkum, til dæmis löggufréttum, er einmitt til þess að samband komist á. Byggja upp traust hjá viðmælendum innan veggja embættanna.
Nú ber svo við að embættin þrjú og allir þeir tugir sem þar starfa, og vita eitt og annað um málið, hafa bundist höndum um að segja ekkert. Að þetta opinbera refsimál sem er rannsakað af alvöru sé þeirra einkamál.
Því trúi ég frekar en blaðamenn og fréttamenn spyrji ekki.
Sigurjón Magnús Egilsson.