- Advertisement -

57,3% Eflingar-kvenna hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu

Nákvæmlega svona er þetta. Nákvæmlega svona fáránlegt og nákvæmlega svona klikkað. Nákvæmlega svona siðlaust. 

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Snemma í síðustu viku fékk ég í hendurnar skýrslu þá sem Varða tók saman um stöðu Eflingarfólks út frá niðurstöðunum úr stóru könnuninni sem rannsóknarstofnunin gerði fyrir ASÍ og BSRB og sem kom út 9. febrúar síðastliðinn. Ég vissi auðvitað og hef lengi vitað að staða Eflingarfólks er erfið. Það ættu í raun öll að vita; við sem erum í Eflingu höfum á síðustu árum ekki gert neitt annað en að benda á hversu fáránlegt ástandið er orðið og taka alla slagi sem við getum til að ná fram breytingum. Þau sem hafa hlustað ættu því að vera vel upplýst. En þegar ég las skýrsluna upplifði ég samt mikla sorg og heita bræði. Eins og góð kona sagði við mig um skýrsluna: „Það er einhvern veginn verra að sjá óréttlætið svart á hvítu.“ Og það er rétt; vitneskjan var vissulega til staðar en að sjá afleiðingar þeirrar stéttskiptingar og misskiptingar sem fengið hefur að vaxa og dafna í samfélaginu ritaðar svart á hvítu er eins og að anda að sér viðbjóðslegri eitrun sem sest að í heilanum og hjartanu. Mikil sorg og heit bræði. 

Staða bæði karla og kvenna er erfið en hér ætla ég að leyfa mér að nefna nokkrar staðreyndir úr lífi Eflingarkvenna, þeirra sem eru með vinnu og þeirra atvinnulausu:

Þú gætir haft áhuga á þessum
  • 19,2% Eflingarkvenna sem á erfitt með að ná endum saman. 
  • Samanlagt á 43,2% Eflingarkvenna erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman.
  • Ríflega 36% Eflingarkvenna eru á leigumarkaði.
  • 33,8% Eflingarkvenna geta ekki mætt óvæntum útgjöldum. 
  • 25,9% Eflingarkvenna geta ekki farið í árlegt frí með fjölskyldunni. 
  • 17,8% Eflingarkvenna hafa þurft að fá fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi, ættingjum og vinum, eða hjálparsamtökum.
  • 41,4% Eflingar-kvenna meta andlega heilsu sína slæma. 
  • 21,6% Eflingar-kvenna meta líkamlega heilsu sína slæma. 
  • 57,3% Eflingar-kvenna hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu á síðastliðnum sex mánuðum. 

Svona er staðan nákvæmlega núna, nákvæmlega hér. Hver getur látið eins og ekkert sé?

En ég veit hvað ég kalla þetta: Smánarblett, skömm, andstyggð, rugl.

Ég veit ekki hvað þið viljið kalla þetta eða hvaða tilfinningar vakna hjá ykkur við að lesa þetta. En ég veit hvað ég kalla þetta: Smánarblett, skömm, andstyggð, rugl. Afleiðingar eitrunar þeirrar sem fengið hefur að breiða úr sér í samfélaginu okkar, eitrunar þeirrar pólitísku afstöðu að tilvera vinnuaflsins skipti engu máli, og að kven-vinnuaflið sé svo ómerkilegt að það sé í raun vafi á því hvort konurnar séu til í alvöru, að einu konurnar sem skipti máli séu þær sem rísa til valda og áhrifa, og þær sem taka af fullum krafti þátt í kapítalismanum, jafn markvisst og allir flottu strákarnir. 

Sama fólk og grobbar sig stöðugt yfir því að allt sem það snerti verði ýmist að gulli eða gamni; besta jafnréttið, mesti árangurinn, skemmtilegasta borgin og svo framvegis ríkir yfir þeirri skömm sem lýst er hér að ofan. Þetta fólk hefur sóst eftir völdum af einbeittri löngun í þau, einbeittri trú á að völdin séu þeirra réttur en getur ekki skilið, vill ekki skilja, að konurnar sem eru undirstaða verðmætasköpunar þjóðfélagsins, sem eru undirstaða þess að fólkið ofarlega í stigveldinu getur lifað eins og aðall fyrri alda, lifa við ÓBOÐLEGAR AÐSTÆÐUR. Lifa við viðvarandi áhyggjur sem flæða yfir alla þeirra tilveru og merkja allt þeirra lifuðu daga af þeim hræðilega þunga sem fylgir lífinu í peningaleysinu.

Þvílík skömm í þessu ríka samfélagi sem kennir sig við velferð og jafnrétti.  

Og nú hefur valdastéttin ákveðið af sinni endalausu visku að láta Eflingar-konur færa enn eina fórnina, án þess að tala við þær, án þessi að tala við verkalýðsfélagið þeirra, án þess að gera eina einustu tilraun til að spyrja hvað hægt sé að gera fyrir þær. Hér er það ALLTAF svona í lífi láglaunakonunnar; „spurðu ekki hvað þau með völdin geta gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir þau með völdin“; dyrum allra skóla er skellt í lás nema dyrum leikskólanna, þær skulu standa galopnar og þangað skulu láglaunakonurnar halda áfram að mæta. Þær eru grundvallar-undirstaðan í samfélaginu, ekkert er augljósara, en valdastéttin getur samt ekki viðurkennt það, nei, meðlimir hennar vilja frekar láta eins og leikskólarnir séu mannaðir róbottum, virðingarleysið fyrir þeim manneskjum sem vinna þau störf sem aldrei verður hægt að vélvæða er algjört, svo algjört að mér verður óglatt af því að þurfa að anda þessari ógeðslegu eitrun að mér enn eina ferðina. 

Þú mátt taka þér launalaust frí, eða nota orlofsdagana þína. 

Og þegar konurnar sem eiga að mæta óbólusettar í vinnuna á sínum láglaunakonu-launum til að gæta barna samfélagsins spyrja: „Hvað á ég að gera ef að ég þarf að vera heima með grunnskólabarnið mitt, af því að grunnskólunum hefur jú verið lokað til að hefta útbreiðslu smita?“ 

frá þær svarið frá stjórunum hjá Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar: Þú mátt taka þér launalaust frí, eða nota orlofsdagana þína. 

Ekki eitt orð um álagsgreiðslur. Nei, bara enn ein niðurlægjandi skilaboðin um undirsetta og jaðarsetta stöðu.

Hvergi annars staðar er hægt að finna eins skýrt dæmi um þversagnir hins kvenfjandsamlega arðránskerfis en þegar horft er á stöðu láglaunakvenna í umönnunarstörfum: Þú skiptir öllu máli fyrir samfélagið en þú ert samt einskis virði. Þarft ekkert og færð ekkert, ekki þakkir, ekki samtal, ekki peninga, ekki virðingu. Ekkert nema endalausar kröfur um að gera meira, hlaupa hraðar.

Nákvæmlega svona er þetta. Nákvæmlega svona fáránlegt og nákvæmlega svona klikkað. Nákvæmlega svona siðlaust. 

Ég vildi óska þess að fregnin um álagsgreiðslur til Eflingar-kvenna sem starfa á leikskólunum bærist okkur á morgun. En ég tel mig vita að það muni ekki gerast. En ég segi það þá hér af allri þeirri bræði sem rennur um æðar mér yfir því bull ástandi sem hér fær að vaxa og dafna: Ég mun ekki gefast upp fyrr en að Eflingar-konur sem í leikskólunum starfa fá þær álagsgreiðslur sem þær eiga skilið.

Við Eflingar-fólk ætlum ekki að sætta okkur við það sjúka ástand sem okkur er boðið uppá. Við ætlum að breyta þeim „lögmálum“ sem okkur hefur verið gert að sætta okkur við. Við munum ekki hætta fyrr en að okkur hefur tekist það. Við munum fá það sem okkur er skuldað. Við erum eldfjall sem byrjað er að gjósa og enginn getur stoppað okkur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: