„Í þessari þingsályktunartillögu er mælt fyrir um tvennt: Í fyrsta lagi að lagt verði fram lagafrumvarp sem feli í sér fullan aðskilnað ríkis og kirkju að lögum að formi, efni og fjárhag,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn.
„Í því felst að búa þarf þannig um hnúta að slitin verði öll tengsl sem byggjast á gildandi lögum og sérstökum samningum, þar með talið sérákvæði stjórnskipunarlaga um þjóðkirkjuna sem tryggir henni sérstöðu umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að semja skuli um endanlegt uppgjör allra samninga þannig að því uppgjöri ljúki eigi síðar en árið 2034. Það er því alllangur og rúmur frestur gefinn í þessu máli.
Samhliða þessu er líka lagt til að lagt verði fram frumvarp um heildstæða löggjöf sem nái til trú- og lífsskoðunarfélaga. Þar verði settar almennar reglur um starfsemi þeirra og eftir atvikum hvort ríkið eigi að hafa milligöngu um innheimtu gjalda eins og nú tíðkast, eða hvort slík innheimta verði alfarið í höndum félaganna sjálfra án aðkomu ríkisins. Í frumvarpinu verði einnig ákvæði um hvernig skuli staðið að samningum við félögin, sé talin þörf á að fela þeim tiltekin samfélagsleg verkefni. Um þau verði þá gerðir sérstakir tímabundnir þjónustusamningar og gætt fulls jafnræðis milli þeirra félaga sem hafa hug á því að taka að sér slík verkefni og uppfylla almenn skilyrði um faglega getu og annað sem nauðsynlegt er til þess að sinna þeim.“