- Advertisement -

Vill opinbera rannsókn á loðnuverðinu

 „Nú er ég ekki í neinum vafa um að stjórnvöld og Alþingi Íslendinga verði að láta opinbera rannsóknaraðila kryfja nýafstaðna loðnuvertíð til mergjar,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson á Akranesi.

„Maður hlýtur að spyrja sig hvort að útgerðir sem stunduðu veiðar á loðnu á vertíðinni sem nú er nýlokið hafi verið að ástunda einn mesta launaþjófnað og skattsvik sem framin hafa verið á Íslandi um langt árabil.

Af hverju segi ég þetta? Jú, það er vegna þess að meðalverð sem íslenskir sjómenn fengu greitt samkvæmt opinberum fréttum var 100 kr. pr. kíló á þessari vertíð. Hins vegar liggur fyrir að meðalverðið sem Norðmenn fengu var 225 kr. pr. kíló fyrir rúm 12 þúsund tonn sem þeir veiddu af loðnu við Íslandsstrendur á loðnuvertíðinni 2021.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Rétt er að rifja upp Kastljósviðtal sem ég og Heiðrún Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi vorum í fyrir 2 árum eða svo. Þar var umræðuefnið gríðarlegur verðmunur á aflaverðmæti milli Íslands og Noregs á makríl. En í því viðtali sagði framkvæmdastjóri SFS að verðmunurinn fælist m.a. í því að íslensku skipin væru að veiða makrílinn þegar fituinnihald á makríl væri minna og hann því verðminni.

Þetta voru sem sagt rökin sem Heiðrún kom með á þeim mikla verðmun sem hefur verið á makríl milli Noregs og Íslands en hvaða rök skildi framkvæmdastjóri SFS koma með núna? Sérstaklega í ljósi þess að íslensku skipin veiddu loðnuna þegar hrognafylling var mun meiri en hjá norsku skipunum en það liggur fyrir að hrogn loðnunnar eru verðmætasta afurðin í loðnuveiðunum.

Hvernig má þetta vera?

Þetta þýðir að ef eitthvað ætti að vera þá ætti meðalverðið til íslensku sjómannanna að vera enn hærra en greitt var til norsku skipanna sem var eins og áður sagði 225 kr. pr. kíló. Hvernig má þetta vera?  Að meðalverðið sé 100 kr. á meðan norsku skipin fá 225 kr. og það fyrir verðminni afurð og hvað með að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur eins og Heiðrún sakaði mig um að gera í áðurnefndu Kastljósviðtali um verðlagningu á makrílafurðum.

Hvað er það sem veldur þessum gríðarlega verðmun enn og aftur? Og bara þannig að því sé haldið til haga þá á þessi verðmunur á milli norsku skipanna og íslensku ekki einungis við hvað loðnu varðar, þetta á líka við aðrar uppsjávartegundir eins og síld og makríl eins og margoft hefur verið fjallað um.

En það er ekki „bara“ að verið sé að hlunnfara íslenska sjómenn með því að greiða ekki rétt verð til sjómanna, það er líka verið að hlunnfara íslensku þjóðina í formi skatttekna og hafnargjalda.

Mér reiknast til að ef íslenskir sjómenn hefðu í það minnsta fengið sama meðalverð og norskir sjómenn fengu fyrir loðnuna sem þeir veiddu við Íslandsstrendur á nýafstaðinni loðnuvertíð þá hefði aflahlutur íslenskra sjómanna verið 1,4 milljarði hærri en hann var og ríki og sveitarfélög urðu því af 652 milljónum í skatttekjum.

Ætlar einhver að segja að þetta mál þarfnist ekki opinberrar rannsóknar?  Hvar eru stjórnvöld og alþingismenn? Ætla stjórnvöld að láta útgerðina sem er með veiðar og vinnslu á sömu hendi ákvarða og skammta verð til sjómanna til að koma sér hjá því að greiða rétt verð til sjómanna með umtalsverðum skaða ekki bara fyrir sjómenn heldur einnig fyrir ríki og sveitarfélög í formi opinberra gjalda?

Ég kalla enn og aftur eftir opinberri óháðri rannsókn…

Nei, meðan ekki liggja fyrir gögn og alvöru útskýringar af hálfu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á þessum gríðarlega verðmun loðnu á milli Noregs og Íslands er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en einn stærsta launaþjófnað um langt árabil.

Ég kalla enn og aftur eftir opinberri óháðri rannsókn á þessum verðmun sem er að skaða íslenskt samfélag illilega. En þessi verðmunur á milli meðalverða sem greidd voru er að hafa af íslenskum sjómönnum eins og áður sagði 1,4 milljarða sem er um 30% af öllum auðlindagjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir á þessu ári!

Það má því segja að íslenskir loðnusjómenn séu látnir greiða 30% af auðlindagjöldum í sjávarútvegi í ár vegna þess að verið er að hlunnfara þá illilega með því að greiða ekki hæsta verð eins skýrt er kveðið á um í kjarasamningi sjómanna!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: