„Heilbrigðisráðherra hélt upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að taka á móti bænaskjali meira en fimm þúsund einstaklinga um að skimanir á leghálskrabbameini verði fluttar til landsins að nýju eftir hrakför ráðherrans með sýni til Danmerkur. Sú ákvörðun hefur valdið óþolandi drætti á því að niðurstöður berist konum sem bíða milli vonar og ótta. Auk þess veldur hringl með sýni milli landa aukinni hættu á að sýnin misfarist. Áður voru þau flutt milli herbergja hjá Krabbameinsfélaginu,“ skrifar Þorsteinn Sæmundsson í Mogga dagsins.
„Sýnaúrvinnsla auk brjóstaskimunar voru hrifsuð af Krabbameinsfélaginu og færð Landspítala sem ekki var í færum að taka við keflinu fyrirvaralaust. Það verður ekki sagt að sýnataka og úrvinnsla Krabbameinsfélagsins hafi verið án áfalla en unnið hafði verið að úrbótum og félagið hafði orðið sér úti um nákvæmari búnað til rannsóknar á sýnum. Landspítalinn hafði lýst því yfir að hann réði við úrvinnslu og rannsókn á sýnum þrátt fyrir mikið álag á spítalann. Margir helstu sérfræðingar landsins hafa stigið fram og gert alvarlegar athugasemdir við ákvörðun heilbrigðisráðherra. M.a. hefur verið bent á að með henni geti mikilvæg þekking og reynsla rannsóknarfólks hér á landi glatast. Það ber að vona að ráðherra beri gæfu til þess að hlusta á raddir sérfræðinga og þess stóra hóps kvenna sem lýst hafa áhyggjum sínum og endurskoði ákvörðun sína um skimanir.“