- Advertisement -

Samfylking og Viðreisn á villigötum

Sjálftökufólkið tekur nefnilega ekki þátt í niðurfærslunni.

Ragnar Önundarson skrifar:

Tveir stjórnmálaflokkar, Samfylkingin og Viðreisn, virðast ætla, einu sinni enn, að gera þráhyggjuna um evru að helstu „söluvöru“ sinni fyrir kosningar. Þeir eru búnir að „mála sig út í horn“ áður og virðast ekkert hafa lært eða skilið.

Ef gengi krónunnar er of hátt skráð, t.d. vegna aflabrests, verðfalls, brests í komu ferðamanna eða þess að við skiptum í kjarasamningum meiri tekjum á milli okkar en þjóðartekjunum nemur, þá versnar hlutfallið milli gjaldeyristekna og -gjalda og þar með verður skortur á gjaldeyri, sem leiðir til þess að hann hækkar í verði í krónum. Það er kallað gengislækkun.  Kaupmáttur okkar allra lækkar, við tökum höggið saman, eins og sannir jafnaðarmenn. Gjaldeyrisaflandi fyrirtæki lifa og hagkerfið réttir fljótt úr kútnum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef menn búa hinsvegar við gjaldmiðil sem sveiflast m.v. þarfir annarra landa, t.d. Þýskalands (sem evran gerir að verulegu leyti) þá týna útflutningsfyrirtækin tölunni (þmt. ferðaþjónustufyrirtækin sem flytja náttúruupplifun út og afla á móti gjaldeyris).  Starfsfólkið missir vinnuna og einhverjir sem þora þurfa að stofna ný fyrirtæki frá grunni, sem reynslan sýnir að er tímafrekt stórmál.  Þess vegna er mikið atvinnuleysi viðvarandi í jaðarríkjum evrunnar, sem líða fyrir það að hún fylgir iðnríkjunum í miðju ESB. Langvarandi atvinnuleysi er mesta og versta böl hvers samfélags.

Að gæla við hugmyndir um aðild að ESB og upptöku evru, sem mundu valda því að þeir sem missa vinnuna við gjaldþrot útflutnings-fyrirtækjanna þjáist einir, á meðan allir aðrir halda áfram að eyða gjaldeyrisvarasjóðum landsins þar til það kemst í þrot, væri réttnefnt glapræði.

Að stofna fyrirtæki og koma því í lífvænlegt horf er mikið mál, tekur langan tíma og er áhættusamt. Þrotlaus vinna og margar svefnlitlar nætur.  Þetta er ástæða þess að atvinnuleysi yrði mikið og langvarandi, ef land með einhæft atvinnulíf og ólíkt þeim iðnríkjum Vestur-Evrópu sem ráða gengi evrunnar, tæki hana upp.  Svonefnd „niðurfærsluleið“ yrði eina úrræðið, þ.e. lækkun launa allra nema þeirra sem ráða launum sínum sjálfir. Sjálftökufólkið tekur nefnilega ekki þátt í niðurfærslunni.

Allir eiga að vita að full aðild að ESB er forsenda upptöku evru. Samt er rætt um upptöku evru eins og einfalt mál. Til að okkur verði óhætt að ganga í ESB yrðum við að virkja í stórum stíl og laða stóriðju til okkar í sama mæli, til að auka stöðugleika hagkerfisins. Engin samstaða er um þetta og reynslan sýnir að sú stóriðja sem hingað vill koma, önnur en álbræðslur, er vandfundin.

Enn er nægur tími til leiðrétta ranga stefnu fyrir kosningar. Það ættu Samfylkingin og Viðreisn að gera. Það er ekki gæfulegt að leggja mál sín í dóm kjósenda „með óhreint mjöl í pokahorninu“.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: