Styrkur almennings til þingflokkanna er þá nærri 1.868 m.kr. á ári.
Gunnar Smári:
Þingflokkarnir eru mesta hættan sem stafar að lýðræðinu. Fyrir utan 744 m.kr. sem flokkarnir skömmtuðu sér úr ríkissjóði 2019, og 45,5 m.kr. sem þeir tóku úr sveitarsjóðum, og fyrir utan þá 106,2 m.kr. sem þeir tóku frá Alþingi í rekstur þingflokkanna, fyrir utan þá 24 aðstoðarmenn sem ráðherrarnir halda, þá skömmtuðu þingflokkarnir sér 30 stöðugildum fyrir aðstoðarmenn frá þinginu. Ef við reiknum kostnað við hvern aðstoðarmann, ráðherra eða þingmanna, á 1,5 m.kr. á mánuði þá er kostnaðurinn við að halda 54 aðstoðarmenn um 972 m.kr. á ári. Þetta er varleg áætluð tala, nær aðeins utan um laun en ekki starfstengdan kostnað; húsnæði, fjarskipti, ferðir o.s.frv.
Styrkur almennings til þingflokkanna er þá nærri 1.868 m.kr. á ári, sé miðað við tölur frá 2019. Þetta jafngildir um 7,5 milljörðum króna á kjörtímabili.
Og í hvað fara þessir peningar? Verðið þið mikið vör við lýðræðislegt starf stjórnmálaflokka í dag? Nei, svo til hver króna af þessu fer til þess að tryggja völd forystu flokkanna innan síns flokks og síðan til að reyna að veiða atkvæði landsmanna til að tryggja þessari forystu völd í samfélaginu.
Berið þetta saman við framlög ríkisins til Leigjendasamtakanna, Neytendasamtakanna, samtaka aldraðra, öryrkja, sjúkra, fanga, barna eða annarra hópa sem sannarlega þyrftu á aðstoð að halda til að styrkja rödd sína innan lýðræðisins.
Sjálftaka forystu stjórnmálaflokkanna er komin úr yfir allan þjófabálk. Það er ekki hægt að líta á þetta annað en valdarán, að nokkrar vinsælukrakkarklíkur sæki svo mikið fé í almannasjóði til að verja völd sín að þau hafa afl til að leggjast yfir umræðuvettvanginn og veggfóðra samfélagið með flennistórum photoshopuðum myndum af forystufólkinu með innihaldslausum slagorðum.
Þingflokkarnir eru ógn við lýðræðið. Þetta hljómar undarlega, en samfélag okkar er orðið svo spillt að við þurfum að venja okkur við setningar sem hingað til hafa aðeins átt heima í myrkum framtíðarhrollvekjum.