- Advertisement -

Sólveig Anna rýnir í Markaðinn

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Markaðurinn á góðum nótum í dag. Þorsteinn Már í löngu viðtali þar sem hann lítur í baksýnisspegilinn og iðrast þeirra mistaka að hafa ekki haft betra eftirlit með rekstrinum í Namibíu. Hann hefur lært af reynslunni og nú á Samherji sína eigin hlítingarnefnd en formaður hennar er Björgólfur Jóhannsson, sá er ríkti um stund sem forstjóri, þegar enn var örlítil óvissa um viðbrögð íslenskra stjórnvalda í kjölfar leiðinda sjónvarpsins í garð Þorsteins.

Vissuð þið t.d. að Gylfi Magnússon er bara að slumpa þegar hann talar um vogunarhlutfall?

Einnig er í blaðinu að finna umfjöllun um eignarfjár og vogunarhlutföll íslensku bankanna. Á meðan beðið er eftir því að Bankasýslan opni endurmenntunarbúðir fyrir íslenska alþýðu sinnir Markaðurinn því af kostgæfni að miðla til okkar upplýsingum um hvað snýr upp og hvað niður í bankarekstri, enda fátt mikilvægara í aðdraganda þess að við eignumst öll okkar litla bút í banka. Vissuð þið t.d. að Gylfi Magnússon er bara að slumpa þegar hann talar um vogunarhlutfall? Talandi um glannalega hegðun en slíka hegðun vill Markaðurinn einmitt ekki ástunda; „Langt í glannalegan bankarekstur“, ástæðulaust að vera hrædd og ég er þakklát fyrir milda hönd þeirra sem skrifa en ég get þó ekki annað en haft dálitlar áhyggjur í ljósi þess að tímaskyn mannanna sem skrifa Markaðinn er ólíkt mínu eigin. Í huga Markaðs-manna er svo langt síðan að efnahagskerfið hrundi að þeir muna ekki einu sinni hvað atburðurinn var kallaður, hvað þá atburðarásina og tala þess vegna eins sjaldan um hann og þeir geta, enda fátt leiðinlegra en að tala um eitthvað sem þú manst eiginlega ekkert eftir. Einu sinni gátu þeir stundum rifjað upp hið Svokallaða Hrun en nú er sá tími líka löngu liðinn og þegar minnst er á atburði ársins 2008 er bara horft á þá manneskju sem upp rifjar og þagað þangað til hún hættir að vera leiðinleg og þusa um eitthvað sem allir eru löngu búnir að gleyma. Og þess vegna er ég kannski ekki alveg eins róleg og ég ætti að vera; LANGT líkt og STRAX er teygjanlegt hugtak og þó að LANGT hjá mér þýði alveg slatta þá er það svo að hjá Markaðnum þýðir LANGT yfirleitt frekar STUTT. Þannig að þegar ég las fyrirsögnina þá hugsaði ég: „Jesús, það verður allt orðið snarvitlaust eftir í mesta lagi 5 ár.“ Og það voru sennilega ekki viðbrögðin sem Markaðurinn var að sjá fyrir sér en svona getur þetta verið þegar fólk býr í sama efnislega heimi en dvelur þó í gjörólíkum tímavíddum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: