- Advertisement -

Íslenskur vinnumarkaður mjög kynjaskiptur

Samfélag „Síðastliðna áratugi hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist jafnt og þétt. Einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað er mikil kynjaskipting starfa. Konur og karlar gegna ólíkum störfum og er kynbundið námsval og kynjaskipting milli starfsgreina enn áberandi. Þá eru karlar mun oftar ofar í valdastigum atvinnulífsins en konur, og karlar virðast enn búa við betri starfsþróunarmöguleika en konur.“

Þetta segir í nýrri og ítarlegri skýrslu félagsmálaráðuneytisins.

Þingmennirnir Sigríður Ingibjörg Ingadóttr, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson lögðu fram beiðni um skýrslu frá félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Eygló Harðardóttir hefur nú svarað með ítrarlegri skýrslu, sem sjá má hér í heild sinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í skýrslunni segir að á Íslandi óx umsvifamikill þjónustugeiri í kjölfar iðnvæðingarinnar sem enn er hluti af hagkerfinu, hið svokallaða umönnunarhagkerfi. Það sama á við um önnur vestræn lönd óháð pólitískri stefnumótun í velferðarmálum. Undir þjónustugeirann falla fjölmörg störf sem hafa verið skilgreind sem „kvennastörf“, t.a.m. umönnunarstörf og almenn skrifstofustörf. Á hinn bóginn einkennast „karlastörf“ fremur af sérhæfðum störfum þar sem meiri möguleiki er á lóðréttum hreyfanleika, þ.e. starfsþróunarmöguleikum og valdastöðum.

Og síðar má sjá þennan texta:

„Dregið hefur lítillega úr atvinnuþátttöku hér á landi síðustu ár en hefur, þrátt fyrir efnahagshrunið árið 2008, haldist ein sú allra mesta á Vesturlöndum. Síðasta áratug hefur dregið úr atvinnuþátttöku karla en þátttaka kvenna aukist. Vinnutími hefur styst og dregið hefur úr bilinu milli vinnutíma karla og kvenna; karlar vinna þó enn lengri vinnudag en konur og vinnutími er almennt langur í alþjóðlegum samanburði. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fyrir fjórða ársfjórðung 2015 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 41,5 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarviku rannsóknarinnar, 37,1 hjá konum og 45,2 hjá körlum. Meðalfjöldi vinnustunda á viku hjá þeim sem voru í fullu starfi var 45,7 klukkustundir, 42 hjá konum og 48,1 hjá körlum. Meðalfjöldi vinnustunda á viku hjá þeim sem voru í hlutastarfi var 24,8 klukkustundir, 25,6 hjá konum og 23,1 hjá körlum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: