- Advertisement -

Var Rósa Björk svikin um líklegt ráðherrasæti, og svikin?

Fyrrum formenn Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eru ekki á framboðslistum Samfylkingarinnar.

„Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, virðist ekkert ráða við metnaðarfulla fólkið sem dreymir um að komast á þing í nafni flokksins. Vitað er að Logi hefur lofað nýjum frambjóðendum ráðherraembættum gegn því að koma nú til liðs við Samfylkinguna,“ segir Náttfari Hringbrautar.

„Lofi maður upp í ermina á sér hefur það yfirleitt afleiðingar, ekki síður í pólitík en annars staðar. Til þess að fá flóttakonuna Rósu Brynjólfsdóttur yfir í flokkinn frá Vinstri grænum var henni lofað efsta sæti og ráðherratign. Hún hefur nú þegar verið svikin um efsta sætið og allt er óvíst um ráðherraembættið. Í fyrsta lagi er Samfylkingin ekki komin í ríkisstjórn og í öðru lagi verður ekki séð að Rósa yrði tekin fram yfir aðra þingmenn, nái hún inn á þing.

Takist Samfylkingunni að komast í ríkisstjórn með þrjá eða fjóra ráðherra, má ætla að eftirtaldir kæmu allir á undan þeim sem nýgengnir eru í flokkinn: Logi, Helga Vala, Oddný, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem mun leiða lista flokksins í Kraganum, og jafnvel einn karlmaður. Oddný og Þórunn hafa báðar ráðherrareynslu sem hlýtur að styrkja stöðu þeirra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mikil leiðindi hafa orðið í flokknum vegna framkomu við þá sem hafa barist fyrir bættum hag flokksins og unnið að því að toga fylgi hans upp. Margir eru ósáttir við það sem virðist vera skipuleg pólitísk aftaka á Ágúst Ólafi Ágústssyni þingmanni en hann verður ekki í framboði. Þá þótti varaþingmaðurinn Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir fá kaldar kveðjur frá flokksforystunni en hún er nú gengin úr Samfylkingunni. Ekki þyrfti að koma á óvart að Jóhanna Vigdís kæmist nú á þing fyrir annan flokk en hún þykir bæði hæf og frambærileg.

Athygli vekur að hvorki Össur Skarphéðinsson né Ingibjörg Sólrún skipa heiðurssæti á listum flokksins í Reykjavík.

Þykir það vera til marks um þær illdeilur sem krauma undir yfirborðinu hjá Samfylkingunni í Reykjavík.

Gamalgrónum leiðtogum og flokksmönnum hugnast illa valdagræðgi og frekja þeirra kvenna sem komið hafa fram í flokknum upp á síðkastið og telja sig eiga inni stór óuppfyllt loforð.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: