Markmiðið virðist vera að tengja Ragnar Þór Ingólfsson við eitthvað misjafnt.
Gunnar Smári skrifar:
Kosningabarátta auðvaldsins í VR er hafin. Hér skrifar Þorsteinn Friðrik Halldórsson blaðamaður og fyrrum stjórnarmaður í Heimdalli, í Fréttablaðið, blað í eigu auðmanna sem eru bakhjarlar Viðreisnar. Um hvað? Það er ekki alveg ljóst, en markmiðið virðist vera að tengja Ragnar Þór Ingólfsson við eitthvað misjafnt.
Eftir stríð lagði Sjálfstæðisflokkurinn í skipulagða baráttu til að stöðva framþróun sósíalismans á Íslandi. Á þingi klauf flokkurinn fyrst á milli stjórnmálaarma verkalýðshreyfingarinnar og samvinnuhreyfingarinnar og síðan á milli krata (sem þá voru enn sósíalistar) og róttækari sósíalista. En mikilvægasta aðgerðin var að innrás inn í verkalýðshreyfinguna, sem tókst svo vel að eftir 1960 var stefna sameinaðrar verkalýðshreyfingar alltaf að skapi hægrisns (uppsöfnunarkerfi lífeyris, séreignarstefna í húsnæðismálum, afskiptaleysi verkalýðshreyfingar af landsmálum o.s.frv.). Þetta tókst með því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði undir sig verkalýðsfélög, einkum félög verslunarmanna, iðnaðarmanna og sjómanna. Ætla má að um 40% af verkalýðshreyfingunni hafi fallið undir Sjálfstæðisflokkinn, sem dugði til að íslenskt samfélag þróaðist ekki eins langt í átt til norræns velferðarkerfis og raunin varð á Norðurlöndunum, þar sem verkalýðshreyfingin var sósíalísk en ekki háð undir fasískum slagorðum um stétt með stétt.
Það er ágætt að hafa þessa sögu í huga nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn sýnir aftur klærnar í verkalýðsmálum. Eftir að hafa náð tökum á stórum hluta hreyfingarinnar og nýtt þau til að svæfa restina varð flokkurinn værukær. Þegar merki um endurreisn verkalýðshreyfingarinnar hafa tekið að sjást á undanförnum árum hefur Valhöll vaknað og vill nú endurheimta VR, sem lengi var eitt af höfuðbólum flokksgæðinga. Þar gekk hægrið svo langt að taxtar voru aflagðir, almenn kjarabarátta lögð niður og átökin færð í prívatsamninga starfsfólk og félagið skilgreint sem lífsstílsfélag, ekki verkalýðsfélag eða baráttutæki launafólks.
Framboðið gegn Ragnari Þór er í þessum anda. Og aðferðirnar eru í anda skrímsladeildar flokksins. Að umbreyta öllum þeim sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í skrímsl; óverðuga sem teygja sig í þau áhrif sem flokkurinn telur sig eiga..