„Málfrelsið er því brothætt og að því er víða sótt. Ritskoðun og bannfæring skoðana er vopn kúgara til að tryggja völdin. Komið er í veg fyrir starfsemi frjálsra fjölmiðla, upplýsingaflæði er heft…,“ segir meðal annars í grein sem Óli Björn Kárason skrifar og birt er í Mogganum í dag.
Þegar ég las þetta rifjaðist enn og aftur upp fyrir mér þegar Bjarni Benediktsson, þá bálreiður, sagði ákveðinn að hann ætlaði aldrei að tala við mig aftur. Þá var ég og hafði verið um árabil ágætlega farsæll þáttastjórnandi. Áður en ég fer nánar út í það velti ég fyrir mér hvort Bjarni hafa hótað fleirum eða stigið skrefið til fulls og útilokað þau blaða- og fréttamenni sem honum líkar ekki. Það hlýtur að vera.
En hvað þurfti til að ráðamaðurinn Bjarni gerði hvað hann gat til að stöðva þáttastjórnanda? Hann sagði mig hafa skrifað ófögnuð um sig og fjölskyldu sína. Hvorki þá, áður né nú, hef ég verið hræddur við Bjarna. Ég gekk á hann til að fá svör við því sem hann sagði. Eftir mikinn eftirgang og háreysti sagði hann ástæðuna vera þá að ég hefði sett like á Facebookfærslu bróður míns, Gunnars Smára.
Smári hafði skrifað:
„Engey er víða. Áður en neyðarlögin voru sett hringdi Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, í konu sína, Helgu Jónsdóttir, eins og fram kom í Kastljósi, og upplýsti um yfirvofandi aðgerðir bankans. Helga er dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur, systur þeirra Einars og Benedikts Sveinssonar, stórtækra fjárfesta. Benedikt er faðir Bjarna, sem nú er fjármálaráðherra. Hann og Helga eru systkinabörn. Áður en neyðarlögin voru sett fengu Engeyingar því viðvörun og svigrúm til að bjarga sínu. Algjörir snillingar.“
Ef einhver er enn að lesa vil ég taka fram að ég er ekki að skrifa þetta mín vegna. Ég sakna þess ekki að eltast við að fá fólk eins og Bjarni í viðtöl. Þeim kafla er lokið í mínu lífi.
Hitt er að ég trúi því ekki eitt einasta augnablik að viðbrögð eins og Bjarni sýndi hafi einungis verið brúkuð gegn mér. Og það fyrir eitt like.
Með skapofsa og í hefndarhug lagði Bjarni stein í götu fjölmiðlamanns. Margsinnis athugaði ég hvort Bjarni hefði skipt um skoðun. Nei, var svarið.
Hversu mörg blaða- og fréttamenni hafa lent í því sama? Veit það ekki. Eflaust eru þau nokkur. „Ritskoðun og bannfæring skoðana er vopn kúgara til að tryggja völdin,“ skrifar Óli Björn. Það er hárrétt.
-sme