- Advertisement -

Næstu árin mín í stjórnmálum

Ég lofa að leggja mig áfram alla fram af ástríðu og heiðarleika.

Halldóra Mogensen skrifar:

Tíminn á þingi hefur verið alls konar, það er erfitt að setja hann í orð. Ég hef gengið í gegnum alla liti tilfinningaregnbogans. Ég hef gefið af mér og fengið til baka. Ég hef líka fengið skítkast og almenn leiðindi en allt hefur það verið lærdómsríkt og endalaust áhugavert, líka í grátinum, kannski sérstaklega þar. Maður lærir svo margt um sjálfa sig með því að takast á við mótlæti.

Ég hef lagt fram og barist fyrir málum sem ég brenn fyrir. Það er einstök tilfinning sem fylgir því að setja allt sitt í baráttu sem maður virkilega trúir að geti breytt samfélaginu til hins betra. Að finna meðbyrinn og stuðninginn og hvað þá að finna fyrir málunum þokast áfram í rétta átt. Að ná árangri. Ég finn þetta með borgaralaunin, hugmyndir um breytt hagkerfi, með afglæpavæðinguna, með iðnaðarhampinn og CBD og fleiri mál. Ég finn að við Píratar erum smátt og smátt að hafa áhrif á orðræðuna í samfélaginu, sem hefur keðjuverkandi áhrif inn í orðræðu annara flokka. Þannig náum við árangri. Með því að færa jaðarumræðuna inn í meginstrauminn komum við hlutunum á hreyfingu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Píratar eru hins vegar sá flokkur.

Sumarið 2012 gekk ég inn á fund í Háskólanum í Reykjavík þar sem til umræðu voru stórar hugmyndir um að stofna nýja stjórnmálahreyfingu, sem átti að heita því furðulega nafni Píratar. Eftir stutta stund leið mér eins og ég væri komin heim, búin að finna „træbið“ mitt. Mér líður þannig ennþá.

Það er ekki sjálfsagt að á þingi sé flokkur sem trúir á mikilvægi lýðræðisins, valddreifingar og að fólk eigi að geta haft áhrif á ákvarðanir sem hafa áhrif á líf sitt. Píratar eru hins vegar sá flokkur. Það er ekki sjálfsagt í stjórnmálum að leiðarstefið sé gagnsæi, ábyrgð, gagnrýnin hugsun og upplýstar ákvarðanir. Það er hins vegar grunnstefna Pírata. Það er ekki sjálfsagt að stjórnmálamenn byggi ákvarðanir sínar á gögnum og rökræðu en ekki sérhagsmunum. Það er hins vegar grunnstefna Pírata. Ég gaf mig alla í það verkefni að stofna þessa mikilvægu hreyfingu og koma fyrsta þingflokknum okkar á þing. Ég var varaþingmaður frá árinu 2013 þar til ég hlaut kosningu 2016. Ég hef sinnt ýmsum hlutverkum á þessum rúmum 4 árum og má þar nefna formennsku í velferðarnefnd og þingflokksformennsku í kjölfarið. Mig langar ofboðslega mikið að halda áfram að vinna að þeim mikilvægu verkefnum sem mér hefur verið treyst fyrir hingað til.

Ég hef frá unga aldri séð möguleikann á samfélagi þar sem allir hafa tækifæri til að dafna á eigin forsendum. Samfélag þar sem engin þarf að líða skort. Til þess að sú sýn verði að veruleika þurfum við að sýna hugrekki og horfast í augu við ákveðnar grundvallarspurningar um gagnsemi þeirra kerfa sem við höfum sniðið okkur. Eru þau raunverulega að þjóna heildinni? Við þurfum nefnilega að byrja að takast á við rót vandamálanna í stað þess að plástra mein sem eru inngróin og kerfislæg.

Því hyggst ég bjóða mig fram á lista í prófkjöri Pírata í Reykjavík.

Pólitíkinni skortir nauðsynlegt hugrekki, framsýni og heildræna nálgun til að takast á við þær risastóru samfélagsbreytingar sem eru þegar hafnar. Áskoranirnar og tækifærin sem við stöndum frammi fyrir krefjast samvinnu og nýsköpunar, krefjast þess að við höfum öll efnahagslegt frelsi til þátttöku í samfélaginu. Svo við getum notað sköpunarkraftinn og haft þor til að prófa okkur áfram í takt við þær hröðu samfélags- og tæknibreytingar sem við erum að ganga í gegnum.

Samtakamátturinn er lykillinn að getu okkar til að leysa risastóru verkefnin framundan. Verkefni stjórnmálanna er því fyrst og fremst að skapa aðstæður sem gerir fólki kleift að dafna.

Ég lofa að leggja mig áfram alla fram af ástríðu og heiðarleika.

Því hyggst ég bjóða mig fram á lista í prófkjöri Pírata í Reykjavík. Þó ég setji stefnuna á þingsæti í Reykjavíkurkjördæmi norður þá ætla ég mér áfram að vera þingmaður allra landsmanna. Lausnirnar við mörgum af stærstu áskorunum okkar næstu árin er að finna á landsbyggðinni og við Píratar ætlum að hjálpa fólki að hrinda þeim í framkvæmd.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: