Til þess er Bjarni Ben í ríkisstjórninni
Haldið þið að þetta fólk sé að hugsa um hagsmuni almennings?
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Auðvitað eru það íslenskir auðmenn sem ætla sér að fá Íslandsbanka fyrir slikk. Til þess eru þeir með Bjarna Ben í ríkisstjórninni. Til að vinna fyrir sig. Hann væri ekki fjármálaráðherra í Sjálfstæðisflokknum nema að tryggja hagsmuni manna á borð við þá sem ætla sér að kaupa Íslandsbanka og græða hressilega á okkur almenningi. Við eigum jú þennan hlut sem á nú að selja. Þetta á að gera þrátt fyrir að hver sérfræðingurinn á fætur öðrum vari við að selja núna. Það sé langt frá því ráðlegt. Að minnsta kosti fyrir almenning sem á bankann. En Bjarna Ben, öðrum Engeyjunum, öðrum ríkum ættum og auðmönnum er alveg sama um það. Þeir vilja kaupa bankann núna og það ódýrt. Þessu söluplani var komið inn í þingið í skjóli nætur, rétt fyrir jól. Svo erfiðara sé að bregðast við. Og nú á að keyra þetta í gegn á miklum hraða.
Bjarni Ben ber fyrir sig að Bankasýsla ríkisins mæli með þessu. En hvaða menn sitja í Bankasýslunni. Það eru menn sem Bjarni hefur plantað þar inn svo þeir taki ákvarðanir í samræmi við hans vilja. Og auðvitað sjálfstæðismenn. Formaðurinn Bankasýslunnar, Lárus L. Blöndal lögmaður, er líka í stjórn Eimskips. Vilhjálmur Bjarnason er í stjórninni, en hann var framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta lengi og í stjórn þar, auk þess sem hann er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þriðji stjórnarmaðurinn er síðan Margrét Kristmannsdóttir framkvæmdastjóri Pfaff og fyrrverandi varaformaður Samtaka atvinnulífsins. Haldið þið að þetta fólk sé að hugsa um hagsmuni almennings? Það væri mjög barnalegt að halda það.