- Advertisement -

Ríkisstjórnin: Sjálfstæðisflokkur leggst þvert gegn höfuðmáli Vinstri grænna

…að við skulum láta okkur detta það í hug að við getum snýtt einhverju hér út á þessum skamma tíma…

Höfuðmál Vinstri grænna, þjóðgarður á miðhálendinu, er í ógöngum. „Samstarfsflokkur“ þeirra í ríkisstjórninni hefur rifið í handbremsuna. Sjálfstæðisflokkurinn beitir gamalli taktík. Þeirri sömu og flokkurinn gerir hvað varðar breytingar á stjórnarskrá. Að það þurfti að ræða málin, svara fleiri spurningum og það allt. Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins kann taktíkina upp á tíu. Hér eru brot af ræðu hans um þjóðgarðinn.

„Margt þarf að skoða þegar við stígum svona stór skref, t.d. viðmiðanir, staðla og kröfur um vernd sem við ætlum að gera.

Hvernig spila jaðarsvæðin inn í þetta og t.d. nýting á orkuauðlindum, aðgangur ferðaþjónustu og svo margir þættir; nýting heimamanna á beitarlandi, veiðar, ferðir almennings, útivistarfólks o.s.frv.?

Mörgum virðist hugmyndin um hálendisþjóðgarð snúast um að ná yfirráðum.

Hvað þýðir það að fara inn í þjóðgarðaflokkun alþjóðaþjóðgarðastofnunarinnar?

Hvaða valkostir eru þar mögulegir? Hversu langt eigum við að ganga?

Ætlum við að stíga skrefið að fullu strax í byrjun?

Þjóðgarður eins og lagt er upp með hann í þessu frumvarpi er mjög varanleg ráðstöfun þar sem náttúruverndarhagsmunir hafa forgang.

Við þurfum að reyna að svara því hvert þessi starfsemi þjóðgarðsins leitar síðan.

Margir hafa virkilega miklar áhyggjur af þessu út frá mismunandi hagsmunum; þeir sem búa á svæðum sem eiga lönd að hálendinu, íbúar þessara sveitarfélaga vegna nytja og annarra hagsmuna sem þeir hafa af því, hinn fjölmenni hópur Íslendinga sem er farinn að ferðast um hálendið, bæði að sumri og vetri, þeir sem stunda atvinnustarfsemi tengda ferðaþjónustu og þeir sem nýta orkuauðlindir landsins. Það má í raun lengi fjalla um hver það er sem metur og skammtar þýðingu annarra hagsmuna. Svo mörgu er ósvarað.“

Síðar í ræðunni sagði Jón:

„Mörgum virðist hugmyndin um hálendisþjóðgarð snúast um að ná yfirráðum, að það sé ekki nauðsyn vegna náttúruverndar eða ókosta núverandi kerfis. Hraði málsins og aðferðafræði við ákvarðanatöku á vegum hins opinbera er fordæmalaus. Í svona stóru máli er hún fordæmalaus og í raun og veru alveg galið að við skulum láta okkur detta það í hug að við getum snýtt einhverju hér út á þessum skamma tíma sem hefur aldrei áður hlotið fullnaðarafgreiðslu af hálfu Alþingis. Mögulega er hugmyndin ekki góð. Ég held reyndar að hún sé góð. Ég er mjög hrifinn af því að fara í eitthvert samspil þarna,“ sagði Jón.

Við getum hreinlega orðið útflutningsaðilar á orku.

„En meðan við höfum ekki greint ókostina, höfum ekki greint áhrif og aðra hagsmuni, meðan sú greining hefur ekki farið fram heldur bara algerlega einhliða greining, getum við ekki svarað spurningunni á fullnægjandi hátt. Eru til að mynda afmarkaðar friðlýsingar, m.a. vegna víðerna, ef til vill betri?

Væri það betri niðurstaða?

Erum við búin að fórna lýðræðislegri aðkomu, þekkingu og ábyrgð nærsamfélaga á þessu verkefni?

Hverjir eru hagsmunir framtíðarkynslóða þessa lands?

Erum við að taka ákvarðanir sem hafa til að mynda áhrif á eflingu ferðaþjónustu, ferðalög og það að njóta hálendisins, það að geta nýtt orkuauðlindirnar í breyttum heimi þar sem gríðarleg tækifæri liggja í því að Ísland geti orðið leiðandi í því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis?

Við vitum hvaðan við getum tekið orkuna. Við getum hreinlega orðið útflutningsaðilar á orku í gegnum til að mynda framleiðslu á vetni.“

Spurningar Jóns, bara í þessum köflum eru óteljandi, og víst er að eigi að svara þeim öllum og öðrum til er ljóst að langur vegur er framundan.

En Sjálfstæðisflokkurinn kvittaði upp á þjóðgarðinn í stjórnarsáttmálanum, ekki rétt?.

„Í stjórnarsáttmála er fjallað um málið en ekki um útfærsluna,“ sagði Jón.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: