- Advertisement -

Hækka skatt á mat, lækka á lúxusvörur

Samfélag „Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega áhuga- og úrræðaleysi ríkisstjórnarflokkanna þegar kemur að hagsmunum og aðstæðum þeirra tekjulægstu í samfélaginu. Enn er minnisstæð lækkun tekju- og eignaskatta stóreigna- og hátekjufólks og lækkun auðlindaskatta sem leiðir til kallar á niðurskurð ríkisútgjalda, þ.m.t. heilbrigðismála. Þessi ríkisstjórn hækkar skatt á mat en lækkar skatta á lúxusvörur. Hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga sitja eftir á sama tíma og skuldir eignafólks eru lækkaðar.“

Þannig hefst ályktun miðstjórnar ASÍ.

„Miðstjórn ASÍ hafnar þeim áherslum og forgangsröðun sem lýst er hér að framan.“

Undirbúa markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu stendur ekki til að mæta nauðsynlegri fjárþörf heilbrigðiskerfisins vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið. Það mun óhjákvæmilega leiða til dýrari og lakari læknisþjónustu. Á sama tíma er verið að undirbúa enn frekari markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Fyrir liggur að nú þegar hefur  hópur fólks ekki efni á að nýta sér þessa þjónustu.“

Forsendur gagnvart nýgerðum kjarasamningum

„Þrátt fyrir að allir kjarasamningar sem ríkið hefur staðið að miði við að hækkun launa verði afturvirk frá og með 1. maí sl. og Kjararáð hafi hækkað laun alþingismanna og ráðherra frá og með 1. mars, hafnar ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga með sambærilegum hætti og nemur hækkun lægstu launa og miðar við 1. maí. Á sama tíma leggur meirihluti efnahags- og skattanefndar til breytingar á tekjuskattsfrumvarpi fjármálaráðherra og heimila fulla samsköttun tekna hjóna/sambýlisfólks sem gæti lækkað tekjuskatt þeirra sem eru með meira en 1,4 milljón kr. á mánuði um allt að 900 þús. kr. á ári. Þessi aðgerð er talin kosta ríkissjóð um 3.500 milljónir króna á ári.

Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum og aðstæðum tekjulágra fjölskyldna endurspeglast einnig í húsnæðismálum. Mikil vinna hefur verið lögð í mótun tillagna um nauðsynleg úrræði, einkum verulega hækkun húsaleigubóta og nýtt félagslegt húsaleigukerfi. Breið samstaða náðist um þá niðurstöðu. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin héti því að beita sér fyrir að lögfesta þessar breytingar á haustþingi, er fyrirséð að þessi mál muni dragast fram á næsta ár. Miðstjórn ASÍ lýsir fullri ábyrgð á þessum drætti á fjármála- og efnahagsráðherra, en fyrirséð er að þetta er forsendubrestur gagnvart endurskoðun kjarasamninga í febrúar.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: