- Advertisement -

Ríkisstjórnin er villt í skerðingarþoku

Ég næ því bara ekki…

„Það er eins og þetta kerfi sé byggt á fjárhagslegu ofbeldi. Ég næ því bara ekki hvers vegna í ósköpunum við erum búin að byggja svona kerfi upp og ekki bara það heldur að við höfum verið að viðhalda því og bæta við það og gera það enn ómanneskjulegra en það er. Það er alveg rannsóknarefni út af fyrir sig,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.

„Ég skil ekki í hvaða skerðingarþoku ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur villst. Maður heldur alltaf að menn hafi villst inn í þessa skerðingarþoku, en ég er orðinn sannfærður um að það gerðu menn ekki. Þeir fóru vísvitandi og viljandi þarna inn og síðan létu þeir meiri og meiri þoku umlykja sig þannig að þeir sáu ekki handa sinna skil og geta þar af leiðandi afsakað það að koma svona fram við eldri borgara og veikt fólk,“ sagði þingmaðurinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er auðvitað algerlega fáránlegt…

„Byrjum á erfðafjárskatti. Í frumvarpinu er lagt til að skattfrelsismörk erfðafjárskatts hækki úr 1,5 millj. kr. í 5 millj. kr. Það væri ekki slæmt að eitthvað yrði dregið úr þessum dauðaskatti, eins og hann hefur verið kallaður, þar sem verið er að skattleggja peninga sem búið er að skattleggja áður. Það að hann fari úr 1,5 milljónum yfir í 5 milljónir þýðir eiginlega á mannamáli að þeir sem eru á launamarkaði, og eru á engan hátt tengdir lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins, njóta þess að fá þetta. En eins og staðan er í dag er þetta því miður ekki í boði fyrir þá sem fá lífeyrisgreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það er auðvitað algerlega fáránlegt að við skulum enn vera með svo ömurlegar reglur í þjóðfélagi okkar að þeir sem mest þurfa á aukapeningum að halda séu þeir síðustu sem fái hann. Það er hreinlega alltaf verið að girða fyrir möguleika þeirra á að fá eitthvað út úr kerfinu annað en eymd og skilaboð um að herða sultarólina,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.

Guðmundur Ingi hélt áfram:

Það yrði a.m.k. að gera það ólöglega…

„Það er líka alveg með ólíkindum í þessu samhengi að þessar gífurlegu skerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins eru allt að 45% hjá eldri borgurum og 38% hjá öryrkjum, plús skattur yfirleitt. En þarna erum við að tala um skattfrelsismörk. Það er eiginlega með ólíkindum að þeir sem eru á lífeyri frá Tryggingastofnun séu ekki þar inni og gætu nýtt sér slíka fjármuni. Við getum varla ímyndað okkur hversu óbilgjarnt, mannfjandsamlegt og ofbeldisfullt þetta kerfi er. Ef einhver vildi styrkja öryrkja sem ætti ekki til hnífs og skeiðar, væri það illa staddur að hann gæti ekki lifað mánuðinn af, og einhver myndi vilja styrkja hann og bara hugsa: Ég ætla bara að hjálpa þessum einstaklingi, ég ætla að gefa honum 100.000 kr. á mánuði út árið. En það má ekki. Það yrði a.m.k. að gera það ólöglega, láta viðkomandi fá pening, ekki opinberlega, svo að það kæmi ekki fram í skattskýrslu eða með því að millifæra það inn á reikning hans á annan hátt. Þær upphæðir myndu skerða það sem viðkomandi á rétt á frá Tryggingastofnun.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: