Peningaprentun frá Alþingi
Vigfús Ásbjörnsson, formaður Hrollaugs, skrifar:
Peninga prentun á sér stað í ýmsu formi á Íslandi. Ein stærsta peningaprentun sem hefur átt sér stað hér á landi er trúlega þegar fiskur er settur í kvóta með frjálsu framsali. Allt í einu og væntanlega með samþykki Alþingis og með einu pennastriki er hægt að búa til þúsundir milljónir í formi aflamarks sem útdeilt er svo á einstaka báta og fyrirtæki í kringum landið.
Þessir peningar sem prentaðir eru í formi aflamarks með frjálsu framsali er ekki útdeilt til hins almenna þjóðfélagsþegns þó svo að hann eigi bæði blek, pappír og prentvél peningaprentunarinnar.
Nei, nokkur fyrirtæki fá þetta afhent frá Alþingi frá kjörnum fulltrúum sem lofa þjóðinni alla daga að þeir vinni að þjóðarhag og engu öðru. Loforðin koma samt helst bara fyrir kosningar. Þetta eru peningar sem voru aldrei til fyrr en Alþingi var búið að samþykkja prentunina og afhenta einungis útvöldum með einu pennastriki og kasta þeim inn í annars brothætt hagkerfi þjóðarinnar.
Síðan ákveður markaðurinn verðið á þessum heimildum. Í raun er markaður með þessar heimildir algerlega lokaður fyrir almenning nema þeim efnameiri því þú þarft að geta keypt aflaheimildir af þeim sem fengu þær úthlutaðar í peningaprentvélinni í samkeppni við risafyrirtæki sem einmitt hafa auðgast gríðarlega á peningaprentun Alþingis síðustu áratugina.
Þeir sem fá þessa nýprentuðu peninga þurfa ekki einu sinni að dýfa hendi í kalt vatn eftir það því þó þeir nýti þá ekki til athafna þá geta þeir leigt úthlutaða peningaprentun til annara þjóðfélagsþegna. Þvílík snilld, finnst ykkur það ekki!
Sjávarútvegsráðherra heldur á stærstu peningaprentvél landsins og eina sem hann þarf er að fá meirihluta Alþingis til að samþykkja prentunina. Auðvitað getur hann líka undirbúið jarðveginn og komið upplýsingum um fyrirhugaða peningaprentun í hendurnar á þeim sem honum sýnist svo þeir hinir sömu geti jafnvel gert ráðstafanir sem miða allar að fyrirætlunum ráðherra og til þeirra renni stór hluti nýprentaðra peninga í formi aflaheimilda.
Í hvert sinn sem peningaprentvélin er sett í gang hjá sjávarútvegsráðherra og alþingi þá hefur það miklar afleiðingar fyrir alla hina í þjóðfélaginu sem ekki fá sneið af peningaprentuninni. Þeir peningar sem fyrir eru í þjóðfélaginu rýrna yfirleitt í verðgildi þegar meira er prentað og hent inn í okkar litla krónuhagkerfi. Skyndilega fer þessi prentaði auðar að rata á færri og færri hendur og hann safnast saman hjá þeim sem býður best og jafnvel vill skulda mest.
Störfum fækkar, útgerðum fækkar, tækifæri hverfa, byggðarlög leggjast í rúst um ókomna tíð og til verður einskonar risi með afar stóran munn og maga sem þarf sífellt meiri næringu. Hann nærist ekki lengur bara á allri peningaprentuninni sem prentuð var handa honum í upphafi heldur er hans helsta næring að gleypa alla hina og þegar hann er orðinn nógu stór þá eru það völd í samfélaginu sem næra hann mest. Þannig getur hann stýrt öllu því sem hann vill ofan í sinn stóra munn og maga.
Og þessi risi! Hann verður aldrei nokkurn tímann saddur, tíminn og sagan hefur kennt okkur það. Hann hefur nú þegar gleypt ansi marga úr þjóðfélaginu og þar á meðal ansi marga sem eiga að starfa fyrir okkur á Alþingi sem alþingismenn og ráðherrar með almannahag að leiðarljósi. Þar á meðal er okkar núverandi sjávarútvegsráðherra sem keppist sveittur við að næra þennan risa sem engu mun eira því siðferði hans er löngu horfið. Ráðherrann er svo einbeittur að hann hefur mist sjónir á almannahag og veit ekki einu sinni hvað það orðið þýðir. Já hann verður aldrei saddur og hann hættir ekki fyrr en hann hefur gleypt okkur öll með tölu.
Allt er þetta gert undir rós í nafni sjálfbærar þróunar fiskistofna, rós sem fyrir löngu er fölnuð. Hráefni í peningaprentunina þarf þjóðin að greiða dýru verði eins og sagan hefur kennt okkur sem á landinu búa. Smábátafélagið Hrollaugur á Höfn segir nei takk við fyrirhugum aðgerðum sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á grásleppu. Horfum 100 ár fram í tímann, hvernig viljum við að þjóðfélagið okkar líti út þá. Vonandi ekki í maga risans…