- Advertisement -

Stjórnarþingmenn stöðvuðu fullklárað mál

Það eina sem ég veit er að málið var tilbúið til úttektar eða afgreiðslu úr nefnd.

„Þessi þingsályktunartillaga, eins og segir frá áður, er nú lögð fram í fimmta skipti. Hún hefur áður komið til nefndar, fengið fullt af umsögnum, gestakomum var lokið, nefndarálit tilbúið og málið bókstaflega tilbúið til afgreiðslu á síðasta nefndarfundi efnahags- og viðskiptanefndar á viðkomandi þingi. En einhverra hluta vegna var einn nefndarmaður mótfallinn því að taka málið út úr nefnd og þar með fór það ekki lengra í það skiptið. Það var mjög undarlegt, fannst mér,“ sagði Björn Leví Gunnarsson á Alþingi þegar hann flutti þingsályktunartillögu um ástandsskýrslu fasteigna.

Björn Leví vill herða lög og reglur um ástand fasteigna við sölu þeirra.

„Ég get svo sem ímyndað mér ýmsar ástæður fyrir því en ég veit ekki hvað er satt hvað það varðar. Það eina sem ég veit er að málið var tilbúið til úttektar eða afgreiðslu úr nefnd. Það virtust allir vera sammála því að málið kæmi til þingsins en eins og ég sagði, það þurfti ekki nema einn aðila, meira að segja úr stjórnarandstöðu, til að segja: Nei, ég held að það sé ekki tilbúið, og þá stukku allir í stjórnarmeirihlutanum á það og tóku málið ekki til afgreiðslu eða greiddu atkvæði um það hvort málið væri tilbúið til þinglegrar meðferðar í síðari umræðu,“ sagði Björn Leví.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…að norrænni fyrirmynd…

„Mér fannst það leitt því að ég hef séð frá þeim tíma ýmiss konar fréttir og greinar sem hafa verið skrifaðar um nákvæmlega þetta málefni og þá galla sem þessari tillögu er ætlað að laga. Eins og ég segi þá hafa í þessu máli komið gestir og nefndarálit var tilbúið miðað við þær umsagnir. Ef það kemur ekkert nýtt fram ætti ekki að taka langan tíma að afgreiða málið úr nefnd og fyrir þingið að samþykkja það. Ég held að það sjái allir hversu augljóst skref það er að fara í þessa átt. Þetta er gert að norrænni fyrirmynd og þetta er ekki svo mikil nýsköpun, nema kannski hér á landi, að það ætti að vera einhver ástæða til þess að óttast það á einhvern hátt eða neitt því um líkt,“ sagði Björn Leví Gunnarsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: