- Advertisement -

Rosastyrkir flokkanna eru eitur í lýðræðisríki

Gunnar Smári skrifar:

Hvers vegna draga þeir sér svona mikið fé?

Á sama tíma og fjöldi hópa krefst þess að fá stuðning frá ríkissjóði til að eiga fyrir mat út mánuðinn skammta stjórnmálaflokkarnir sér ógrynni fjár, miklu meira en þeir þurfa í venjulegu árferði, enda er nánast ekkert starf í þessum flokkum annað en þjónusta við forystuna. Hvers vegna draga þeir sér svona mikið fé? Jú, þeir vita sem er að ef einhver á að kjósa þessa flokka á næsta ári þá þurfa þeir að teppaleggja almenna umræðu svo kröfur almennings, viðhorf hans og væntingar, komist ekki að. Það er sameiginlegir hagsmunir forystu flokkanna að almenningur haldi að það sé pólitísk umræða að hengja myndir af þingfólki á strætóskýli eða birta myndbönd af þeim í sjónvarpi að tala um hvað það brennur fyrir að þjóna almenningi, sama fólkinu og stjórnmálafólkið treður sér fram fyrir í biðröðinni við ríkissjóð og treður vasa sína fulla af fé.

Með það eitt markmið að halda sér inn á þingi og sem næst völdunum.

Þessir rosastyrkir, sem stjórnmálaflokkarnir skammta sjálfum sér, eru eitur í lýðræðisríki. Þeir leiða til þess að forysta flokkanna getur beygt grasrót þeirra undir sig, haldið áfram stjórnmálarekstri án þess að hafa nokkur tengsl eða samband við almenning í landinu. Þegar styrkir hafa eyðilagt flokkanna hafa þessir flokkar síðan eyðileggjandi áhrif á stjórnmálin, eru eins og ofalin forysta sem er lost in space, án nokkurra tengsla við umræðuna í landinu, með það eitt markmið að halda sér inn á þingi og sem næst völdunum.

Sósíalistar fengu sambærilegan styrk frá Reykjavíkurborg, en mun lægri, en gáfu hann áfram inn í Maístjörnuna, sem styrkir hagsmuna- og frelsisbaráttu þeirra hópa sem hafa ekki efnahagslegt bolmagn til að reka áfram eigin hagsmunabaráttu (leigjendur, flóttafólk, fátækir o.s.frv.). Það er ósiðlegt að þiggja þetta fé í nafni lýðræðis þegar stjórnmálakerfið sjálft snýst um hagsmuni hinna ríku og að halda niðri röddum þeirra sem harðast verða fyrir óréttlæti samfélagsins, sem stjórnmálastéttin viðheldur. Ég reikna með að sósíalistar muni gera það sama þegar þeir fara á þing. Og að þeri muni berjast gegn þessari spillingu stjórnmálanna, sem þessir styrkir afhjúpa og viðhalda.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: