Markaðslausnum og nýfrjálshyggju hafnað
– launadrifinn vöxtur og velferð almennings í forgrunni.
Efling: Þegar brugðist er við dýpstu kreppu í manna minnum á Íslandi þarf að ganga út frá almannahagsmunum og langtíma sjónarmiðum um viðsnúning í efnahagslífinu. Með því að leita til úreltra hugmynda nýfrjálshyggjunnar um kjararýrnun, samdrátt í opinberum rekstri og aukið frelsi einkageirans er ekki ráðist að rótum vandans heldur stuðlað að dýpri og langvinnari efnahagskreppu. Þetta kemur fram í svari Eflingar við tillögum Samtaka atvinnulífsins (SA), Höldum áfram. Samtökin kynntu tillögur sínar í upphafi mánaðarins í dagblöðum og á vef sínum.
Efling hafnar í meginatriðum hugmyndum SA og keimlíkum hugmyndum Viðskiptaráðs um viðbrögð við samdrætti í efnahagslífinu. Stéttarfélagið segir brýnt að standa vörð um kjör almennings til að stuðla að áframhaldandi eftirspurn eftir vörum og þjónustu og þar með draga úr fækkun starfa á vinnumarkaði. Hvatt er til þess að hið opinbera fjölgi störfum við innviðauppbyggingu jafnvel þótt slíkt átak kosti tímabundna skuldasöfnun. Ávinningurinn af því að halda uppi hærra atvinnustigi skili sér í hraðari viðsnúningi í efnahagslífinu. Minnt er á að viðbótarskuldir vegna viðbragða við kreppunni breyti því ekki að skuldastaða þjóðarinnar verði áfram lág í fjölþjóðlegu samhengi. Því er alfarið hafnað að opinberi geirinn hafi þanist út. Hið opinbera hafi aðeins vaxið í takt við þjóðarbúið í heild sinni frá árinu 1990.
Efling hafnar alfarið tillögum SA um að aðlaga skattkerfið að þörfum fyrirtækja og endurvekja skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa. Þvert á móti þurfi að skapa svigrými til að lækka skatta á launatekjur lágtekjufólks með því að hækka skatta á fjármagnstekjur og hátekjur, hækka auðlindagjald og taka alfarið fyrir skattaundanskot. Stéttarfélagið er sammála SA um að öflug úrræði þurfi til að koma atvinnulausum til starfa og telur brýnt að lækka fasteignagjöld lægstu tekjuhópanna. Ekki er gerð athugasemd við að tryggingargjald verði lækkað tímabundið til þess að vega upp á móti launahækkunum eða atvinnuleysi í erfiðu árferði. Á hinn bóginn er varað við því að almenna þrepið í virðisaukaskattinum sé lækkað enda hafi slíkt gjarnan verið tengt hækkun lægra álagningarþrepsins á matvæli og aðrar nauðsynjar.
Síðast en ekki síst hafnar Efling alfarið tillögu SA um miðstýringu og fækkun kjarasamninga. Áhersla er lögð á að samningsréttur félaga launafólks sé kjarninn í vinnumarkaðskerfi Íslendinga og mikilvægur hornsteinn lýðræðisins í landinu. Hugmyndin um miðstýrt skömmtunarkerfi launasvigrúms vegi ekki aðeins að samningsrétti launafólks heldur geri hann nær óvirkan.
Efling bendir einnig á að kjarasamningar eiga ekki eingöngu að snúast um að skipta hagvexti komandi ára, heldur eiga þeir einnig að geta tekið til breytinga á tekjuskiptingu, þróun velferðarkerfa og framfærslu- og starfsskilyrða hvers konar.