Stjórnmál „Hvernig stendur á því að svo fáir þingmenn telja ástæðu til að tala á í þágu þeirra sem borga brúsann, sem eru jú velflestir ef ekki allir landsmenn?“
Þetta er bein tilvitnun í Staksteina Morgunblaðsins í dag. Höfundurinn, sem trúlegast er Davíð Oddsson, skrifar um störf Alþingis síðustu daga.
„Í fjárlagaumræðunni á Alþingi þessa dagana er hörð keppni í tveimur greinum. Í þeirri fyrri glíma þingmenn um hver geti komið með hæstu tillögurnar til aukningar ríkisútgjalda.
Stjórnarandstaðan stefnir að góðri forystu í þessari keppni og er þó við ramman reip að draga því að stjórnarflokkarnir hafa einnig tekið á honum stóra sínum í þessum efnum og mættu vel undirbúnir til leiks.
Í seinni greininni er forysta stjórnarandstöðunnar enn skýrari en þar er keppt um hver geti talað lengst og oftast, endurtekið sig mest og sagt fæst sem ekki hafi komið fram áður.
Þetta er mikil listgrein og gæti jafnvel orðið gjörningur Íslands á Feneyjatvíæringnum ef ekki væri fyrir karlinn í kassanum og þá staðreynd að um innlenda sköpun er að ræða.
Á meðan þessi árlega keppni gengur yfir hljóta skattgreiðendur þessa lands að velta fyrir sér hvers vegna ekki sé keppt í greinum á borð við skattalækkanir.
Hvernig stendur á því að svo fáir þingmenn telja ástæðu til að taka á í þágu þeirra sem borga brúsann, sem eru jú velflestir ef ekki allir landsmenn?
Fer ekki að verða tímabært að bæta við þriðju keppnisgreininni, þó að ekki væri nema til að gera þetta örlítið áhugaverðara fyrir áhorfendur?“