„Ég vil þó segja að þjónustan sem við höfum í geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi er framúrskarandi og frábær,“ sagði Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki á þingi þegar verið að ræða biðlista eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.
„Kerfi, kerfi, kerfi — já, þetta snýst allt um einhver kerfi. Það er alltaf kerfið sem er fyrir og ég held að kerfið sé oft vandamálið. Ég vil þó segja að þjónustan sem við höfum í geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi er framúrskarandi og frábær. Það er bara vandamálið að komast þangað, aðgengið að henni, og það er eitt af því sem við þurfum að takast á við,“ sagði Vilhjálmur.
„En hitt vandamálið er eftirspurnin eftir þessari þjónustu. Þar held ég að stjórnvöld hafi verið á réttri leið með því að skipta, í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu, heilbrigðisþjónustunni í fyrsta, annað og þriðja stig. Þar er verið að setja fókusinn á það að sinna fólki á fyrsta stigi. Þá þarf ekki alltaf geðlækna, sálfræðinga og annað slíkt. Þá þarf bara að taka utan um einstaklingsmiðað atvik í hvert einasta skipti. Þá eigum við að passa okkur á að fara ekki að skipta okkur niður í stéttir, bara þjónusta barnið þar sem það þarf á því að halda. Það á ekki að þurfa að fá tilvísun eða greiningar eða annað til að fá einhverja smáhjálp. Þannig held ég að við getum leyft þeirri góðu þjónustu sem við höfum núna að sinna því sem hún á að sinna en ekki láta það verða þannig að maður þurfi að vera kominn með stórt og mikið vandamál, að undangenginni tilvísun til heimilislæknis sem eftir einhvern tíma sendir mann svo áfram í greiningu, og svo kemur greiningin til að fá einhverja aðra aðstoð og vandamálið er orðið risastórt og biðlistarnir og þjónustan sem við höfum í dag virkar svo ekki,“ sagði þingmaðurinn.
Hann bætti við: „Við eigum að fjölga úrræðum á fyrsta stigi og gefa þar svolítið lausan tauminn þeim fjölda fólks sem er með fjölbreyttar lausnir. Á fyrsta stigi á ekki að sjúkdómavæða vandamálið og við eigum að hafa aðgengið gott, hjálpa fólki inni á heimilinu, í skólanum og hjálpa því sem fyrst. Þá verða biðlistarnir eftir sérhæfðari þjónustu, sem við þurfum að hafa til staðar og er góð í dag, ekki svona langir.“