„En jafnvel Alþingi hefur verið lamað með sóttvarnaraðgerðum, sem dregur úr möguleikum þess að veita stjórnvöldum aðhald, spyrja spurninga og, ef þörf er á; setja heilbrigðisyfirvöldum stólinn fyrir dyrnar. Og þannig molnar undan þingræðinu og ríkisstjórn reglugerða og tilskipana verður til. Slíkt getur aldrei orðið með samþykki Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar Óli Björn Kárason, sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem skiptir hvað mestu máli, og beinir kastljósinu að hinum mikla skoðanaágreiningi sem er innan Sjálfstæðisflokksins.
„Því er haldið fram að á tímum neyðarástands sé stjórnvöldum heimilt að grípa til þeirra aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar. Ekki aðeins að þeim sé heimilt heldur beri þeim skylda til að grípa inn í daglegt líf almennings til að verja líf og heilsu. Í varnarbaráttu gegn hættulegum vágesti sé stjórnvöldum frjálst að leggja ákvæði stjórnskipunarlaga til hliðar og sniðganga hefðbundið ferli löggjafar sem er sögð of hægvirk og óskilvirk,“ skrifar Óli Björn Kárason og bætir við:
„Ég get ekki annað en hafnað þessum sjónarmiðum,“ bætir hann við í vikulegri Moggagrein sinni.
Óli Björn segir fleira:
„Ég hef haft efasemdir um að heilbrigðisyfirvöld geti sótt rökstuðning í sóttvarnarlög fyrir öllum sínum aðgerðum – óháð því hversu skynsamlegar þær kunna að vera. Í besta falli eru yfirvöld komin á bjargbrún hins lögmæta. Borgaraleg réttindi, sem eru varin í stjórnarskrá, verða ekki afnumin tímabundið (og enginn veit hvað sá tími er langur) með reglugerðum og án nokkurs atbeina löggjafans eða undir ströngu eftirliti hans.“