- Advertisement -

Birgir forstjóri hættir hjá Póstinum

…stærstu rekstrarmálin eru leyst og önnur sjónarmið og svo það sé bara sagt hreint út, pólitískari sjónarmið, fara að skipta meira máli.

Í dag er tilkynnt um það að ég hef sagt starfi mínu lausu hjá Póstinum, skrifar Birgir Jónsson.

Ég hafði það að markmiði þegar ég kom til starfa að sýna fram á að það væri hægt að reka svona ríkisfyrirtæki á sama hátt og öll önnur fyrirtæki. Með alveg einstaklega flottum hópi samstarfsmanna um allt land tókst okkur að umbreyta félaginu, margfalda arðsemi, minnka skuldir um helming og stórbæta þjónustuna.

Fyrirtækið var nálægt greiðsluþroti í byrjun síðasta árs en er nú eitt arðsamasta póstfyrirtæki á Norðurlöndum og þar með mjög verðmætt fyrir eiganda sinn sem erum við öll, fólkið í landinu. Þessi viðsnúningur kemur ekki til vegna gjaldskrárhækkana, eins og margir halda, enda hafa tekjur fyrirtækisins dregist mikið saman á sama tíma. Hagræðing, góðar hugmyndir og metnaður starfsfólks er blanda sem virkar alltaf best og viðsnúningur Póstsins er fínasta dæmi um það.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta hefur verið algjörlega frábært verkefni en ég taldi að nú væri rétti tíminn til að skipta um við stýrið, stærstu rekstrarmálin eru leyst og önnur sjónarmið og svo það sé bara sagt hreint út, pólitískari sjónarmið, fara að skipta meira máli. Þetta er kannski eðlilegt í ljósi eignarhaldsins. Ég sem rekstrarmaður finn mig hins vegar ekki alveg nógu vel í slíkri stöðu og tel mig ekki hafa mikið að gefa í henni.

Það verður áhugavert og gaman að fylgjast með því hvernig byggt verður á þessum sterka grunni á næstu misserum en ljóst er að verkefnin eru mörg og krefjandi. Hjá Póstinum starfar gríðarlega metnaðarfullt og skemmtilegt fólk út um land allt, það kom mér raunar á óvart hvað það er mikill metnaður sem býr í félaginu en við hefðum aldrei náð þessum árangri ef allir, hver einn og einasti starfsmaður, hefðu ekki hjálpað til. Þessi flotti árangur er okkar allra.

Ég mun sakna þessa góða fólks og verð alltaf stoltur að hafa fengið að berjast með þeim í þessari orustu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: