Katrín Jakobsdóttir skrifaði:
„Félagi minn, Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti í dag að hann hygðist ekki bjóða sig fram í næstu alþingiskosningum. Þetta gerði hann á fjarfundi kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis. Sjaldan hefur mér fundist jafn leiðinlegt að vera ekki á staðfundi því við þetta tækifæri langar mann svo sannarlega að standa upp og klappa fyrir merkilegum stjórnmálamanni. Ég hef setið með honum á þingi, þó ekki nema um það bil þriðjung af hans þingtíma, bæði á erfiðum tímum í ríkisstjórninni 2009-2013 þar sem hann vann mikið þrekvirki sem fjármálaráðherra og einnig eftir að hann lét af formennsku en tók að sér margháttuð verkefni í þinginu enda svo reynslumikill að það gilti einu hvaða nefndum hann sat í. Það skemmtilegasta við þessa samveru hafa þó verið fundaferðir út um land, ekki síst um hans kjördæmi þar sem hann þekkir hverja þúfu og hverja kind. Meira ætla ég ekki að segja að sinni, ég fæ betra tækifæri til að reifa feril Steingríms síðar, og við eigum heilan þingvetur eftir saman. Og vonandi fæ ég tækifæri til að ganga með honum um Langanes næsta sumar, ég veit að drengirnir mínir vonast til þess!“