Ritstjóri Moggans lætur sem honum sé brugðið vegna fylgishruns Sjálfstæðisflokksins. Augljóst er að ritstjórinn hefur vanþóknun á ýmsu því sem Bjarni Benediktsson formaður hefur gert og ákveðið. Ritstjórinn kennir Bjarna um fallandi fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Ritstjórinn upplýsir í leiðara um einkakannanir Sjálfstæðisflokksins árið 2013 og hvernig góðri stöðu var forklúðrað.:
„Kannanir, og sérstaklega óbirtar en mjög vandaðar kannanir sem Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur lét gera, sýndu að hann mátti vænta mikils sigurs í kosningunum 2013. Þeim fylgdu athuganir og prófanir á því hvaða óvænt atvik gætu helst breytt þeim spám til verra horfs. Grundvöllur þessara ályktana tók á eðli atvika sem stundum sýndu sig að veikja slíkar sigurlíkur sem blöstu við í fyrirliggjandi könnunum, sem mikið hafði verið lagt í. Þar skipti mestu sem varnarveggur um jákvæða niðurstöðu, hve andúðin gagnvart ríkisstjórninni var orðin þung og gætti um gjörvallt þjóðfélagið. En engan óraði fyrir kúvendingu í Icesave sem skipaði Sjálfstæðisflokknum í sveit sem burðardýri fyrir Steingrím og Jóhönnu og ruglaði óánægjuölduna í þeirra garð. Kúvendingin sú er enn óútskýrð.“
Þarna er bent á að Bjarni Benediktsson, og hans lið, hafi þar mmeð klúðrað væntanlegum stórsigri með afstöðunni til Icesave. Hvort sem það er rétt eða ekki er víst að þetta situr í mörgum flokksmanninum. Og þá auðvitað ritstjóranum.
„Á þessu kjörtímabili lá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn myndi hvergi bila, og standa vörð um vilja stjórnarskrár landsins varðandi fullveldishlutverk í orkumálum. Þar virtist almenningur ekki þurfa að óttast, og síst sjálfstæðismenn. Ákvörðun Landsfundar lá fyrir (eins og í Icesave) og að auki, og mjög til áréttingar trausts og öryggis, hafði formaður flokksins gefið mjög afgerandi yfirlýsingar á Alþingi um að fráleitt væri að víkja í nokkru í þessum efnum. Það var þó gert og enn hefur engin skýring verið gefin á þeirri kúvendingu heldur,“ segir í leiðaranum.
Víst er að gjá er á milli þingflokks og málgagns. Fyrir flokksfólk er eflaust aumt að horfa á Sjálfstæðisflokkinn mælast með rétt um tuttugu prósenta fylgi. Flokksfólk verður samt að meta það við Bjarna að þrátt fyrir hraðfallandi fylgi eru völd flokksins meiri en oft áður.