Það er hreint magnað að lesa um hvernig útgerð og skipstjóri komu fram við sjómennina á Júlíusi Geirmundssyni frá Ísafirði. Á vef ríkisútvarpsins má lesa þetta:
„Verkalýðsfélagið átti í dag fjarfund með sínum félagsmönnum sem eru í áhöfn skipsins. Á þeim fundi hafi komið fram að ástandið um borð hafi verið mjög alvarlegt. Hvorki útgerð né skipstjóri hafi séð ástæðu til að sigla skipinu til hafnar þannig að hægt væri að senda menn í sýnatöku þrátt fyrir að einhverjir væru með skýr einkenni þess að þeir væru með COVID-19.
Í yfirlýsingunni er fullyrt að skipstjórinn hafi skipað mönnum í einangrun meðan þeir voru sem veikastir. Aðstæður hafi verið skelfilegar þar sem þeir veiktust einn af öðrum og höfðu ekki aðrar bjargir en verkjalyf til að halda sér gangandi þar sem skipið var við veiðar og vinnsla í gangi. Hins vegar hafi lyfjabirgðir ekki verið nægar og því neyddust skipverjar til að handvelja þá sem voru veikastir og þurftu á verkjalyfjum að halda.
Þá hefur félagið eftir skipverjum að þeir hafi ekki mátt ræða veikindi sín út á við en hafi fengið að tala við fjölskyldur sínar. „Ítrekað var að ræða ekki veikindin og á 3ju viku sjóferðar var sett á algert bann við að minnast á veikindin á samfélagsmiðlum eða við fréttamenn. Þannig var skipverjum haldið nauðugum og veikum við vinnu út á sjó, í brælu og lélegu fiskiríi á meðan Covid sýking herjaði á áhöfnina.“
Félagið telur að miðað við þessar lýsingar sé ljóst að brotið hafi verið alvarlega gegn skipverjum og verið sé að fara yfir næstu skref í samráði við lögmenn. „Allir áhafnarmeðlimir í Verk Vest hafa ákveðið að fela félaginu umboð til að fara með sín mál er varða réttindi- og launamál.“
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum er nú verið að fara yfir málið til að kanna hvort þarna hafi verið um refsivert athæfi að ræða.“