Sigurður G. Tómasson skrifar:
Á seinustu árum hefur bókin sem fyrirbæri mætt nokkru andstreymi. Alls konar tískupótintátar hafa lagst gegn bókum og þetta sést ansi glöggt td í fasteignaauglýsingum og tískublaðri í fjölmiðlum. Þá hafa geymsluvandræði safna haft áhrif. Andbókasinnar hafa líka haldið fram þeirri bábilju að bækur séu að verða óþarfar. Þótt netið sé gott er þetta vitleysa. Ekki skal því heldur mótmælt að bókaútgefendur eiga nokkra sök í málinu. Með því að gefa út alltof mikið af rusli hafa þeir valdið ofgnótt bóka. Margt um af því sem kemur út mætti áreiðanlega fara beint í tætarann, eða hefði betur aldrei komið út. Lestrarkunnáttu fer nú hrakandi. Það mun örugglega leiða til verri menntunar. Því er nauðsynlegt að efla skriftir og bókmenntastarf. Það er öllum til heilla. Bókin lifi!