Björn Leví Gunnarsson benti á, á Alþingi, fyrr í dag, hvernig tveir stjórnarflokkanna, Vinstri og græn, hafa nánast kúvent í stjórnarskrármálinu.
„Í tilefni dagsins í dag, rúmlega 42.000 undirskrifta og að átta ár eru liðin frá atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá þar sem niðurstöðurnar voru að aukinn meiri hluti vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Aukinn meiri hluti. Það er tilefni til að minnast þess,“ sagði Björn Leví. Og hann rifjaði upp:
„Árið 2009 vildi Framsóknarflokkurinn boða til stjórnlagaþings og fyrir kosningar 2013 var Framsóknarflokkurinn hlynntur endurskoðun stjórnarskrárinnar og ætlaði að beita sér fyrir því að klára málið á komandi kjörtímabili. Við vitum öll hvernig það fór. Fyrir kosningar 2017 var það stefna Vinstri grænna að, með leyfi forseta, „ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2009 og klára nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs“. Hvorugur flokkurinn hefur staðið við gefin loforð. Eini heiðarlegi ríkisstjórnarflokkurinn í þessu máli er kannski Sjálfstæðisflokkurinn. Óheiðarleikinn þar snýr að lýðræðinu, að stjórnarskrárgjafinn fær ekki að ráða. Allir ríkisstjórnarflokkarnir svíkja þar lýðræðislegar niðurstöður.“
Björn Leví sagði fleira:
„Í gær spurði háttvirtur þingmaður Helgi Hrafn Gunnarsson forsætisráðherra hverjar væru hinar augljósu, skýru og sannfærandi skýringar á því að vikið væri frá þeirri vinnu sem byggði á tillögum stjórnlagaráðs, eins og Feneyjanefndin kallaði eftir. Með öðrum orðum: Af hverju fór Vinstrihreyfingin – grænt framboð ekki eftir kosningaloforðum sínum? Svarið, eins og ég skildi það, var stórkostlega áhugavert. Þar rakti forsætisráðherra að ábendingar Feneyjanefndarinnar við frumvarp stjórnlagaráðs frá 2013 væru einhvern veginn svo alvarlegar að ekki væri hægt að halda áfram með málið og það ætti bara að gera eitthvað allt annað. Samt ekki það sem var lofað fyrir kosningarnar. Síðan sagðist forsætisráðherra vilja efnislega umræðu um þær tillögur sem byggja á frumvarpi stjórnlagaráðs þrátt fyrir að hafa allt kjörtímabilið lokað þær umræður á einhverjum formannavettvangi. Mótsagnirnar eru magnaðar.“
Ekki er öll nótt úti:
„En forsætisráðherra gefst tækifæri til að eiga efnislega umræðu um málið á morgun þegar mál Pírata, Samfylkingar og þingmanna utan þingflokka kemur á dagskrá. Forseti. Ég óska eftir viðveru forsætisráðherra í þeirri efnislegu umræðu eins og 1. umr. máls gerir ráð fyrir.“