- Advertisement -

Viljum við áframhaldandi arðrán og hörmungar eða réttlæti, jöfnuð og almenna velsæld

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Nokkur orð eftir heimsókn í Silfrið.

Rótin að brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði er ekki fáfræði verkafólks eða að kjarasamningar séu flóknir. Erlendir félagsmenn í Eflingu er mjög færir um setja sig inn í kjaramál, þeir hafa hugrekki til að standa uppi í hárinu á sínum atvinnurekendum og þegar það nægir ekki þá eru þeir duglegir að leita réttar síns með aðstoð stéttarfélaga. Agnieszka Ewa varaformaður Eflingar er t.d. sjálflærður sérfræðingur í kjarasamningum og þekkir þá inn og út. Hún stóð árum saman í mikilli baráttu fyrir sig og samstarfsfólk sitt vegna ýmissa mála.

Tölurnar um fjölda launakrafna og upphæðir, sem Efling hefur vakið athygli á, sýnir að vandamálið er ekki að fólk leit ekki réttar síns og „láti brjóta á sér“. Enda er það einfaldlega algjör rökleysa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í stuttu máli er verið að stela launum af verkafólki á skipulagðan og ósvífinn hátt.

Sú staðreynd að þessar kröfur eru nær undantekningarlaust staðfestar fyrir dómi sýnir að vandamálið er ekki að kjarasamningar séu á nokkurn hátt óskýrir. Enda er það almennt ekkert samþykkt að af því að lög og reglur séu flóknar eða að það séu mörg orð í samningum megi brjóta þá.

Í stuttu máli er verið að stela launum af verkafólki á skipulagðan og ósvífinn hátt. Meginskýringin á því er afar einföld: Refsileysi og afleiðingaskortur vegna ásetningsbrota af hálfu atvinnurekenda. Með þessu er í raun innbyggður hvati í kerfinu fyrir launaþjófnað!

Þessar kröfur sem við gerum í Eflingu fyrir hönd félagsfólks okkar endurspegla raunveruleg brot á réttindum félagsmanna, ekki mistök í launabókhaldi. Efling sendir ekki út launakröfur fyrir hönd félagsmanna nema þær séu studdar gögnum á borð við ráðningarsamning, launaseðil, tímaskráningar, kvittanir fyrir greiðslu launa og svo framvegis.

Staðreyndin er sú að launaþjófnaður er í veldisvexti á íslenskum vinnumarkaði. Heildarupphæð launakrafna Eflingar hefur vaxið um 40% á ári síðustu fimm ár. Frá 2015 – 2019 var meira en milljarði stolið af félagsfólki Eflingar. Nú er svo komið að kröfurnar nema um milljón á dag. Hafa ber í hug að þetta eru eingöngu tilkynnt brot og sterkar vísbendingar eru um að margir félagsmenn veigri sér við að leita réttar síns af ótta við uppsögn, ekki vegna þess að þeir viti ekki að á þeim er brotið.

Það sem við viljum er afskaplega einfalt: Að sektarákvæði verði innleitt og að 100% af höfuðstól kröfunnar leggist ofan á gjaldfallna kröfu. Við á sjálfsögðu tökum tillit til þess þegar að um raunveruleg mistök er að ræða.

Einsdæmi í heiminum að verkalýðshreyfingunni sé kennt um atvinnuleysið sem er tilkomið vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda.

Það er mikilvægt að tala um að sá hópur sem er líklegastur til að verða fyrir launaþjófnaði er sami hópur og er í hættu á því að verða fyrir ýmsum öðrum brotum og illri meðferð. Og þetta er sá hópur sem oft þarf að sætta sig við óboðlegt húsnæði sem greiða þarf fyrir svimandi háa leigu.

Það er því augljóst að hér er um kerfisbundið vandamál að ræða sem þarfnast kerfisbundinnar lausnar. Ekkert annað dugar.

Það er löngu orðið tímabært að það verði látið af því að kenna fólkinu sem er neðst í efnahagslega píramídanum, valdalausu fólki, fólkinu sem nota bene hefur knúið hér áfram hagvöxtinn um þá glæpi sem á þeim eru framdir eða afsaka þjófnað á þeim með því kjarasamningar séu margar blaðsíður með mörgum orðum. Slíkur málflutningur sæmir ekki fullorðnu fólki.

Einsdæmi í heiminum að verkalýðshreyfingunni sé kennt um atvinnuleysið sem er tilkomið vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda hér og annars staðar. Þvílík afhjúpun á því hatri sem greinilega hefur grafið um sig á vinnandi fólki í vissum hópum hér á landi. Hrokanum og dómgreindarleysinu virðast engin takmörk sett.

Það er mikilvægt að tala hér um að þau sem verða fyrir launaþjófnaði er sama fólkið og er í hættu á að verða fyrir ýmsum öðrum brotum eins og komið hefur fram í skýrslum er fjalla um aðstöðu aðflutts fólks á íslenskum vinnumarkaði. Þau er líka fólkið sem þarf að sætta sig við algjörlega óþolandi húsakost. Þegar við horfum á þetta er augljóst að hér er um kerfisbundið vandamál að ræða sem krefst kerfisbundinna lausna.

Það er löngu orðið tímabært að það verði látið af því að reyna að kenna fólkinu sem er neðst í efnahagslega píramídanum, fólkinu sem nota bene hefur knúið hér áfram hagvöxtinn, um þann skort sem þau upplifa og þá glæpi sem á þeim eru framdir.

Einnig vil ég segja þetta:

Fyrir okkur hér, sem og verkafólk annarsstaðar í veröldinni er verkefnið þetta:

Við erum mörg og þau eru fá.

Við verðum að knýja á um að snúið verði af mannfjandsamlegri (og náttúrufjandsamlegri) braut arðránssamfélagsins. Það er augljóst að ekki verður lengur við það unað að auðstétt veraldarinnar fari með mannkyn og lífríkið allt sem sitt prívat leikfang, sína prívat eign. Verkafólk hvar sem er í heiminum þarf að sameinast í upprisu og endurheimta allt það sem af okkur hefur verið stolið. Þetta er mannréttindabarátta og þetta er hatröm barátta um efnahagsleg gæði, þau gæði sem við höfum skapað með vinnu okkar. Barátta fyrir réttlæti. Engin manneskja sem komin er til vits og ára, sem ekki hefur annarlegra sérhagsmuna að gæta, getur sagt að best sé að hlutirnir breytist ekki. Við búum inn í grimmilegu stigveldi. En við erum mörg og þau eru fá. Það er jafn satt núna og það var í árdaga baráttu vinnandi fólks fyrir réttlæti. Ef við stöndum saman þá getum við krafist þess að hagsmunir okkar, vinnuaflsins, verði í algjöru fyrirrúmi. Að við sjálf fáum völd til að ákveða hvernig lífsskilyrði okkar og barna okkar eru. Við höfðum gleymt því hvers við erum megnug vegna þess að minningarnar um alla sigrana voru markvisst þaggaðar niður. En nú er tímabært að við munum alla sigra fortíðarinnar, þegar að allslaust fólk, hatað, hætt og smánað af valdastéttinni, náði í gegn ótrúlegum og stórkostlegum hlutum. Ef að þau gátu það þá getum við það nú. Ég trúi því af öllu hjarta. Við verðum einfaldlega að velja hvað við viljum: Áframhaldandi arðrán og hörmungar eða réttlæti, jöfnuð og almenna velsæld. Ef að við veljum að berjast fyrir réttlæti með samstöðuna og sjálfsvirðinguna að vopni eru okkur allir vegir færir.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: