Svo virðist sem SÍ hafi ekki sjálfstæðar skoðanir og vald í málum sem þessu.
„Skilaboðin frá heilbrigðisráðuneytinu eru mjög skýr. Líf og heilsa heimilismanna hjúkrunarheimila skiptir ekki máli,“ skrifar Gísli Páll Gíslason, sem er formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, í Mogga dagsins.
„Þetta eru kaldar kveðjur til þeirra aðila sem lögðu mikið á sig á fyrri hluta ársins við að verjast veirunni og undirbúa starfsemina á þann hátt að bærist veiran inn á heimilin þá væri í raun allt gert til að bregðast við á sem skynsamlegastan og bestan hátt,“ skrifar Gísli Páll.
„Mesta hættan er á að stjórnendur heimilanna undirbúi sig ekki með sama hætti í þessari þriðju og væntanlega fleiri næstkomandi bylgjum Covid-19, þar sem það er ekki hægt, það eru hreinlega ekki til fjármunir til þess. Því fylgir mikil hætta á að illa fari fyrir alla aðila. Það sem blasir við er að sýkist einhverjir á hjúkrunarheimilum landsins verði þeir sendir inn á Landspítala. Enda staðfesti forstjóri þess góða fyrirtækis í Kastljósi nýlega að aukinn kostnaður þeirra vegna Covid-19 næmi mörgum milljörðum og það yrði allt saman greitt af ríkisvaldinu. Það er ekki sama Jón og séra Jón.“
Gísli Páll hefur áður skrifað um stöðu hjúkrunarheimilanna. Þar hafa ekki öll pláss verið notuð vegna Covid-19.
„Heimilin tóku ekki inn einstaklinga meðal annars til að eiga pláss fyrir sérstaka Covid-deild ef smit kæmi upp á heimilinu. Þessar töpuðu tekjur nema milli eitt og tvö hundruð milljónum króna. Verulegar fjárhæðir fyrir heimili sem eru flest nú þegar rekin með halla. Formlegt svar við beiðni okkar um greiðslu framangreinds barst nýlega frá Sjúkratryggingum Íslands og var í raun um að ræða áframsendingu svars frá heilbrigðisráðuneytinu. Svo virðist sem SÍ hafi ekki sjálfstæðar skoðanir og vald í málum sem þessu. Og svarið var á þá leið að heilbrigðisráðuneytið ætlaði sér ekki að greiða þessar töpuðu daggjaldatekjur til hjúkrunarheimilanna í bili og málið yrði skoðað í upphafi næsta árs.“