Sprengisandur „Ég tel að sjúkrahúsið sé öruggara núna en það hefur nokkurn tíma verið. Það er helst vegna þess að við erum með það öflugt starfsfólk og öflug kerfi þar sem lögð er mikil áhersla á gæði. Þegar einblítt er á öryggi og gæði, sést frekar það sem aflaga fer og við skráum það. Þegar skráningum fjölgar er það ekki alltaf vegna þess að atvikum fjölgi, heldur vegna þess að við sjáum hlutina betur. Við erum að vinna flókna hluti og skila betri heilsu til þjóðfélagsins heldur en nokkru tíma fyrr,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni á sunnudaginn,þegar hann var spurður hvort sjúkrahúsið hafi gefið eftir, sé óöruggara en það var.
„Vissulega truflar mjög hversu innviðirnir eru slæmir og við gætum gert enn betur væru innviðirnir byggðir upp með fullnægjandi hætti. „
Það sem af er ári 2015 hafa 25 alvarleg atvik í íslensku heilbrigðiskerfi verið tilkynnt til landlæknis.
Í nær öllum tilvikum var um að ræða samverkandi þætti eða röð atvika sem leiða til þess að alvarlegt atvik á sér stað. „Oft er hreinlega um að ræða atvik sem erfitt er að koma í veg fyrir, svo sem þegar um er að ræða fall eða byltu. Þá má rekja sum atvikanna til þess að upplýsingamiðlun er ekki nægilega góð vegna þess að samskipti milli starfsfólks eru ekki nægilega markviss,“ sagði í svari landlæknisembættisins við fyrirspurn Fréttablaðsins um ástæður atvikanna.
„Ég tel að sjúklingar spítalans séu eins öruggir og þeir voru. Aukning, sem sést í þessari skýrslu, er að hluta skráningarfyrirbæri. Fólk tekur betur eftir, er duglegra að skrá. Við höfum mestar áhyggjur af alvarlegum atvikum. Þau eru á Landspítala og hafa verið sex til tólf á ári undanfarin ár. Við förum alltaf í rótargreiningar á þeim atvikum og skoðum nákvæmlega hvað fór úrskeiðis, hvaða lærdóm má læra af og tilkynnum landdlækni og stundum lögreglu, það fer eftir lögum og reglum. Þetta eru allt hlutir sem við erum að vinna í og læra af,“ sagði Páll í Sprengisandi.
Alvarlegum atvikum sem koma á borð landlæknis hefur fjölgað mikið síðustu ár, sagði í Fréttablaðinu. „Árið 2014 voru þau 33, árið 2013 voru þau átta, og árið 2011 og 2012 níu. Embættið telur fjölgunina einungis vera vegna þess að vakin hefur verið athygli á tilkynningaskyldu heilbrigðisstarfsmanna. Verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms, skal auk tilkynningar til landlæknis skv. 1. mgr. tilkynna það til lögreglu í samræmi við ákvæði laga um dánarvottorð, krufningar o.fl.“