Atvinnuvegir Offramleiðsla Kínverja á áli hefur orðið til þess að verð á áli hefur lækkað um þrjátíu prósent á þessu ári. Þetta sagði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í samtali við mbl.is.
Að sögn Péturs, segir í fréttinni, eru orsakirnar fyrir því fyrst og fremst offramleiðsla í Kína og vaxandi útflutningur þaðan sem hafi hægt á efnahagsvextinum. „Á móti hafa Kínverjar ekki dregið úr framleiðslu og fyrir vikið hefur myndast þrýstingur á útflutning. Það sem er jákvætt er að það er ört vaxandi eftirspurn í heiminum eftir áli,“ sagði Pétur.
Pétur sagði ástæðuna fyrir því vera að ál er notað í æ ríkari mæli í samgöngutæki, ekki síst bifreiðar. Þar er verið að mæta kröfu stjórnvalda, ekki síst á Vesturlöndum, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að létta bílaflotann.
„Álverið í Straumsvík skilaði um 400 milljóna hagnaði fyrir skatta á síðasta ári, sem er 0,3% arðsemi eigin fjár. Fram hefur komið að það sé óviðunandi arðsemi að mati Rio Tinto á Íslandi. Á síðustu árum hafi því verið ráðist í aðhaldsaðgerðir og starfsmönnum í Straumsvík m.a. fækkað um í kringum 100 manns,“ segir í frétt mbl.is.
„Þegar harðnar á dalnum og álverð lækkar er óhjákvæmilegt að það hafi áhrif á rekstur álvera víða um heim,“ segir Pétur. „Álverð hefur lækkað um 30 prósent frá áramótum. Slík lækkun hefur auðvitað áhrif og dæmi eru um að óhagkvæmum rekstrareiningum sé lokað. Auðvitað skiptir samkeppnishæfnin máli.“