- Advertisement -

Fólk er á flótta vegna blóðþorsta og ófriðarhegðunar Nató og Vesturlanda

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Dagur B. Eggertsson og Jón Atli Benediktsson hvetja okkur almenning til „virkrar þátttöku í mikilvægri umræðu um hvernig við sem samfélag getum lagt okkar af mörkum í þágu friðar“ eins og segir í grein þeirra í dag í Fréttablaðinu.

Sem áhugamanneskja um frið í heiminum fagna ég auðvitað þessari hvatningu. Sem innlegg í umræðuna legg ég m.a. til að Ísland hætti þátttöku í Nató sem er sá „aðili“ í veröldinni sem hefur kynt skelfileg ófriðarbál af hvað einbeittastri grimmd, allt til að tryggja yfirráð hins hvíta og ríka vesturs. Það „collateral damage“ sem saklaus alþýða hefur þurft að þola sökum árásargirni Nató er svoleiðis að aldrei verður hægt að bæta fyrir það. Og auðvitað er áhuginn enginn hjá þeim sem tekið hafa þátt í eða stutt glæpa-innrásir síðustu áratuga. Stríðsglæpadómstólinn er jú ekki fyrir hátt setta Vesturlandabúa, það er öllum ljóst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta var gert til að „bjarga fólkinu í Líbíu“.

Sem innlegg í umræðuna legg ég líka til að þeir flokkar sem tala fyrir mannúð og friðsemd í mannlegum samskiptum reyni að lifa sjálfir eftir sínum fögru orðum. Þegar að Samfylkingin og VG voru saman í ríkisstjórn þessa lands tóku flokkarnir glaðir þátt í því að koma á svokölluðu „loftferðabanni“ yfir Líbíu sem þýddi í raun að vestrænar þotur komu og sprengdu allt í tætlur. Þetta var gert til að „bjarga fólkinu í Líbíu“.

Við getum ef að við viljum leitað okkur upplýsinga um það hvernig alþýðan þar hefur það eftir björgunar-sprengjurnar okkar. Svo langar mig að rifja upp hér að það var ekki fyrr en að aktivistar höfðu mjög hávært sett fram þá afdráttarlausu kröfu að Háskóli Íslands þar sem Jón Atli er rektor hætti að sjá um tanngreiningar fyrir Útlendingastofnun að HÍ tók ákvörðun um að hætta þeim.

Tanngreiningar eru notaðar til að útbúa ástæðu fyrir ríkið að vísa ungu fólki úr landi sem hér hefur sótt um skjól, oft fólki sem er á flótta vegna blóðþorsta og ófriðarhegðun Nató og Vesturlanda á alþjóðavettvangi. HÍ hætti að tanngreina núna í mars síðastliðnum. Ég auðvitað fagna því innilega en veit jafnframt að tanngreiningar væru ennþá í gangi ef að fólk hefði ekki sett mikinn tíma og mikla orku í að knýja á um að þeim yrði hætt.

…og fjölskyldunni sem nú er í felum fyrir íslensku ríkslögreglunni verði boðið að dvelja í Höfða meðan hún getur fundið sitt eigið húsnæði.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta hér er sú að mér finnst ekki sæmandi að fólk með völd í samfélagi okkar, fólk í háttsettum virðingarstöðum skuli ekki vera fært um meira en að „hvetja almenning“ til að hugsa um frið í mannlegum samskiptum. Ég í það minnsta þarf enga slíka hvatningu og ég þarf sannarlega ekki ráðstefnu um frið. Ég og almenningur þessa heims þurftum aftur á móti að fólk með völd og status taki gallharða afstöðu með friði og gegn stríði, með því að hætta að gera hlutina sífellt verri með endalausum árásum og innrásum. Tíma orða er liðinn og tími aðgerða runninn upp. Fyrir löngu síðan.

Að lokum legg ég til að blætis-dýrkuninni á húsinu Höfða (þar sem m.a. er verið að rannsaka „gildi nýsköpunar fyrir friðaruppbyggingu“ eins og kemur fram í greininni sem ég vísa til) verði hætt samstundis og fjölskyldunni sem nú er í felum fyrir íslensku ríkslögreglunni verði boðið að dvelja þar meðan hún getur fundið sitt eigið húsnæði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: