Til að ná því markmiði þurfa samningsaðilar að ganga í takt og þar er Reykjavíkurborg ekki undanskilin.
„Dónaskapurinn sem þau sýna samningsaðilum sínum – með þessari framkomu – er með ólíkindum. Sú staðreynd vekur óneitanlega ekki upp miklar væntingar að skipulagsþáttur sáttmálans og annar undirbúningur framkvæmda, þar sem Reykjavíkurborg er með skipulagsvaldið, gangi jafn hratt fyrir sig og sáttmálinn gerir ráð fyrir,“ skrifar alþingismaðurinn Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki í Moggann.
Þar fjallar Vilhjálmur um samgöngusáttmálann. „Það kemur ekki á óvart að margir séu vel áttavilltir um þróun umferðarmála á höfuðborgarsvæðinu eftir umræðuna undanfarið sem hefur verið mjög misvísandi. Ekki bætti úr skák að á þriðjudag gat borgarstjóri ekki svarað þeirri spurningu oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn með fullnægjandi hætti hvort borgin gæti tryggt skipulag Sundabrautar svo brautin gæti orðið að veruleika. Það er hins vegar staðreynd að Sundabraut er órjúfanlegur hluti samgöngusáttmálans eins og formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra hefur bent á,“ skrifar Vilhjálmur.
„Skýrar forsendur fyrir gerð sáttmálans, forustuhlutverk fjármálaráðuneytisins í félaginu sem fer með málefni sáttmálans, skýr vilji samgönguyfirvalda og afgerandi ákvæði sáttmálans um að allir aðilar þurfi að standa við sínar skuldbindingar skipta því miklu máli í vinnunni fram undan. Vinnunni við að byggja upp fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk hefur val um ferðamáta, þar sem enginn ferðamáti er undanskilinn, þar með talið einkabíllinn. Til að ná því markmiði þurfa samningsaðilar að ganga í takt og þar er Reykjavíkurborg ekki undanskilin,“ segir einnig í langri grein Vilhjálms.