Kannski hafði hann ekkert hlutverk, ekkert verkefni; átti ekkert nema sjálfan sig.
Árni Gunnarsson skrifar:
Undanfarna daga hefur mér oft orðið hugsað til mannsins, sem fannst látinn í jaðri íbúðabyggðar í Reykjavík fyrir skömmu, og enginn kunni deili á. Hann hefði eins getað fallið úr skýi, fokið yfir hafið frá fjarlægu landi; enginn þekkti nafn hans né vissi hvaðan hann kom. Hann hafði legið þarna í marga daga og jafnvel vikur. Engir ættingjar, engir kunningjar eða vinir höfðu saknað hans. Hann hafði bara lagst þarna niður og dáið. Líklega utangarðsmaður í samfélagi, sem veitti honum enga athygli. Kannski hafði hann ekkert hlutverk, ekkert verkefni; átti ekkert nema sjálfan sig, – líf hans tilgangslaust og dauðinn besta lausnin.
Mér fannst fréttin um dauða þessa manns ömurleg og sorgleg og það vöknuðu margar spurningar. Engum verður um kennt, engar ásakanir um mistök velferðarsamfélagsins, bara spurningar um algjöran einmanaleika, tengslaleysi og hvort fleiri einstaklingar séu í svipuðum sporum og þessi óþekkti maður. Þúsundir erlendra starfsmanna dvelja hér á landi á hverjum tíma; sumir hlunnfarnir um réttmæt laun, látnir búa í óíbúðarhæfu húsnæði og standa nú frammi fyrir atvinnuleysi. Þessir menn hafa fært þjóðinni mikinn auð með vinnuframlagi sínu.
Ekki veit ég hvort óþekkti maðurinn var úr þeirra hópi. Ég er hins vegar sannfærður um að óþekktu mennirnir gætu verið fleiri og að samfélag okkar þyrfti að veita þeim, afkomu og lífi meiri athygli og umhyggju.