- Advertisement -

Ókeypis aðgangur að auðlindinni

Alþingi Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði á Alþingi í dag, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætli í ár að gefa aðganginn að fiskveiðiauðlindinni.

 

„Kvótaeigendur heilt yfir munu samkvæmt áætlun í frumvarpi til fjárlaga 2016 ekki borga nema 5,3 milljarða í veiðigjöld fyrir árið 2015. Veiðigjöldin hafa á síðustu árum verið um helmingi hærri. 5,3 milljarðar eru hins vegar svipuð upphæð og hefur hingað til runnið í hið svokallaða almenna veiðigjald og það gjald hefur verið hugsað á þann veg að það standi undir rekstri og kostnaði við sjávarútveginn, sem sagt kostnaði við beina og óbeina þjónustu á vegum ríkisins við sjávarútveginn. Hér má nefna rekstur Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu, Landhelgisgæslunnar að einhverju marki, sömuleiðis Samgöngustofu og svona mætti áfram telja,“ sagði Björt.

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Björt ÓlafsdóttirEigendurnir fá ekkert

Hún hélt áfram og sagði að í ár fari veiðigjaldið hins vegar aðeins í iðnaðinn sjálfan. „Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga mun ekkert renna í sameiginlega sjóði til handa þjóðinni. Leigan er 0 kr. Við fáum ekkert til að standa undir sameiginlegum verkefnum allrar þjóðarinnar, t.d. heilbrigðisþjónustu. Eigendur auðlindarinnar fá ekkert í sinn hlut. Þessi staða er mjög eftirtektarverð og sérstök vegna þess að það er ekki eins og sjávarútvegsfyrirtækin berjist í bökkum. Það vita forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar mætavel. Fyrir mánuði stóð hæstvirtur forsætisráðherra sjálfur á fundi Samtaka sjávarútvegsfyrirtækja og hældi greininni í hástert fyrir að hafa á árinu slegið Íslandsmet í útflutningi. Það er gott að það gengur vel en það er óþolandi að þjóðin fái engan skerf af þeirri velgengni. Ef sjávarútvegsfyrirtækin geta greitt sér arð vegna þess að vel gengur eiga eigendur auðlindarinnar eins rétt á sínum arði — en ríkisstjórnin er greinilega á öðru máli.“

 

Takk fyrir

„Ég segi bara: Takk fyrir ekkert,“ sagði Björt í lok máls síns.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: