Ætla má að Birgi Ármannssyni, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokks, þyki nóg um dauflyndi stjórnarandstöðunnar. Hann skrifar grein í Mogga dagsins. „Einstakar nýlegar ráðstafanir kunna þó að orka tvímælis – þær eru ekki hafnar yfir gagnrýni – og nauðsynlegt er að stöðugt eigi sér stað endurmat á stöðu mála,“ segir meðal annars í grein Birgis, um aðerðir vegna Covid.
Hann sjálfur er ekki svo óviss: „Almennt talað tel ég að íslensk stjórnvöld hafi farið vel með valdheimildir sínar frá því farsóttin gerði vart við sig. Í stórum dráttum hafa þau reynt að feta meðalveg milli varfærni og frjálsræðis og hefur að mínu mati tekist betur upp í þeim efnum en flestum nágrannaríkjum okkar.“
Í grein Birgis er þessar leiðbeiningar til stjórnarandstöðunnar:
„Það er með öðrum orðum ekki nóg að lagaheimild sé til staðar til að grípa til sóttvarnaráðstafana og að sýnt sé fram á hættu vegna farsóttar, það verður líka að vera hægt að sýna fram á að ráðstafanirnar séu í hverju tilviki raunverulega til þess fallnar að vinna gegn hættunni. Orsakasamhengið verður að vera fyrir hendi. Um leið verður svo að gæta þess að ekki sé gengið lengra í takmörkunum eða íþyngjandi ráðstöfunum hverju sinni heldur en nauðsynlegt er. Það á líka við um gildistíma aðgerða; þær mega ekki standa lengur en nauðsynlegt er. Með öðrum orðum verður að gæta fyllsta meðalhófs þegar settar eru reglur eða ákvarðanir teknar, sem fela í sér einhvers konar skerðingu borgaralegra réttinda.“