- Advertisement -

Smit hafa greinst eftir 18 daga

Spurningin er hins vegar hvort þetta sé reynslan hér á landi og annars staðar.

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Á miðvikudaginn taka gildi reglur um að allir sem koma til landsins eigi að fara í tvær skimanir og vera í sóttkví þar til niðurstaða fæst úr seinni skimun. Milli skimana munu líða 4 eða 5 dagar.

Líklegast var þessi dagafjöldi valinn, þar sem menn telja þetta vera nægilega langur tími og hafi viðkomandi smitast rétt fyrir ferð til Íslands, þá eigi smit að vera komið fram innan þessara 4 til 5 daga. Spurningin er hins vegar hvort þetta sé reynslan hér á landi og annars staðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…jafnvel kjánaleg ákvörðun…

Nýsjálendingar birta alveg þokkalegar upplýsingar um þá sem greindir hafa verið með smit og hafa komið erlendis frá. Fyrir utan dagsetningu sem smit er staðfest, kyn og aldur, þá er gefið upp hvaðan var komið, flugnúmer og dagsetningu. Skoði maður þessar upplýsingar, þá kemur í ljós að dæmi eru um að smit hafi fyrst greinst 18 dögum frá komu til Nýja-Sjálands. Vissulega reynist algengast að smit greinist á 4. degi og næst algengast að það gerist á 5. degi, þá greindust jafnmörg smit á dögum 8 til 18 og á 4. degi.

Fyrirkomulagið, sem á að taka upp 19. ágúst, er því með sína annmarka og kemur ekki í veg fyrir að smit berist til landsins og dreifist síðan innanlands. Það dregur bara úr líkum á að það gerist. Færa má rök fyrir því, að þetta sé gott fyrirkomulag, en við skulum hafa í huga, að góð ákvörðun leiðir ekki alltaf til góðrar niðurstöðu og jafnvel kjánaleg ákvörðun getur leitt til draumaútkomunnar. Þannig getur vel verið að smitið sem nú hefur dreifst um landið hafi komið frá einstaklingi sem fór í tvöfalda skimun, en kom neikvæður út úr þeim báðum. Reynsla Nýsjálendinga sýnir að veiran getur legið lengi í láginni áður en tilvist hennar er staðfest.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: