Gunnar Smári skrifar: Eitt er að ráðherrann er með fullyrðingar sem enga stoð eiga í raunveruleikanum, um að einkavæðing vegakerfisins sé ódýrari fyrir þau sem borga fyrir kerfið með sköttum og gjöldum. Það er búið að rannsaka þetta út og suður og niðurstaðan er alltaf sú sama; svokallaðar einkaframkvæmdir eru dýrari. Þeir einu sem græða eru eigendur fyrirtækjanna sem taka yfir vegakerfið, enda er leikurinn til þess gerður.
Hitt er að formaður Framsóknarflokksins skuli kjósa að kalla einkavæðingu vegakerfisins samvinnuverkefni. Er hann að hæðast af sögu Framsóknarflokksins, sem spratt upp úr glæsilegustu alþýðuhreyfingu Íslandssögunnar, samvinnuhreyfingunni, sem ásamt verkalýðshreyfingunni gerbreytti lífskjörum alþýðunnar á fyrri hluta síðustu aldar. Er Framsóknarflokkurinn búinn að gleyma sögu sinni og uppruna? Telur núverandi forysta að flokkurinn hafi verið fundinn upp af mönnunum sem sölsuðu undir eignar samvinnuhreyfingarinnar og sem hafa haldið þessum flokki á floti eftir að hann missti allt jarðsamband?