„En hvað er til ráða? Ekki dugir að kjósa,“ skrifar Geir Ágústsson, verkfræðingur og hægri maður, í Moggann í dag. Geir er sýnilega langþreyttur á ástandinu: „Það virðist engu máli skipta hvað nýkjörinn stjórnmálamaður fer ákveðinn inn í þinghús Alþingis eða ráðhús sveitarfélaganna: Þegar þangað er komið mætir honum einfaldlega embættismannakerfið, andspyrna, íhaldssemi kerfis sem ver sjálft sig og í mörgum tilvikum persónuárásir.“
„Kannski fyrsta ráðið sé að hætta að hlusta á stjórnmálamenn sem einoka umræðu- og fréttatíma og krefja stjórnmálamennina þess í stað um að halda kjafti og byrja að hlusta. Um leið má láta fréttir eiga sig. Þar bjóða stjórnlyndir blaðamenn stjórnlyndum einstaklingum í viðtal eftir viðtal og boða þannig heimsmynd sína undir fána fagmennsku og fréttaflutnings,“ skrifar Geir og hann efast stórlega um heilindi fjölmiðla, ekki síður en um stjórnmálamennina.
„Fjölmiðlum er mútað með skattfé til að hlífa stjórnmálamönnum við óþægilegri gagnrýni, og þeir ritskoðaðir í nafni upplýsingaóreiðu þegar þeir reyna að bera á borð annað en hina einu sönnu skoðun.“
Hægri manninum Geir er umhugað um athæfi stjórnmálamennina: „Í kjölfarið má svo biðja stjórnmálamenn um raunverulega réttlætingu á öllum þessum ríkisafskiptum: Hvað eru menn að fá fyrir skattheimtu á öllu sem hreyfist, eða er kyrrstætt? Þarf virkilega að halda úti skattheimtu þar sem jaðarskatturinn er miklu nær 100% en 40% til að styðja við fátæka, reka svolítið heilbrigðiskerfi og bjóða ungu fólki upp á einhverja menntun? Þarf í raun að takmarka atvinnu- og tjáningarfrelsi okkar í miðaldastíl til að tryggja allsherjarreglu? Þarf fullfrískt fólk á öllum þessum bótum – og sköttum – að halda til að samfélagið grotni ekki niður í hreysabyggðir og glæpaöldu? Er stjórnmálamaður svona miklu hæfari til að ráðskast með líf þitt en þú að stjórna því nokkurn veginn á eigin spýtur?“
Endum á þessu: „Fyrsta skrefið er hjá okkur sjálfum. Ríkið er ekki mamma okkar. Það á að þjóna okkur ef það á að geta réttlæt tilvist sína. Það gerir það ekki í meiri mæli en svo að á eftir klappi kemur krepptur hnefi. Nú er mál að linni.“