- Advertisement -

„Ég tel að auðvelt ætti að vera að stjórna smitáhættu mun betur“

Ég geri mér grein fyrir að enginn er vísvitandi að koma með smit til landsins.

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Fram kom á fundi með „þríeykinu“ í gær (vissulega ekki þetta venjulega), að flugfarþegar sem koma frá löndum með fá ný smit þurfa ekki að fara í skimun við landamæri. Miðað er við að ný smit yfir 10 daga tímabil séu ekki fleiri en 10 á hverja 100 þúsund íbúa. Ef ný smit eru fleiri, þá þurfa farþegar að fara í skimun og svo mögulega eftirfylgni.

Þar sem ég á tölur yfir ný smit í hverju landi aftur til 15. febrúar, þá ákvað ég að skoða hvernig þessi staða er hjá þeim 213 þjóðum/svæðum sem tölurnar mínar ná til. Í dag (28. júlí) þá hefðu farþegar frá 120 svæðum/þjóðum sloppið við skimun, en frá 93 verið krafist skimunar. Þessi seinni hópur er hins vegar talsvert breytilegur hvað þessa tölu varðar. Í 38 tilfellum er talan á bilinu 10-30, 12 liggja á bilinu 30-50, 16 eru á bilinu 50-75, aðeins 6 eru á bilinu 75-100, 13 liggja á bilinu 100-150 og loks eru 8 með töluna yfir 150, þ.e. 8 þjóðir/svæði eru með mjög mörg ný smit miðað við fólksfjölda um þessar mundir. Þessar 8 þjóðir eru Barein, Brasilía, Franska Guína, Ísrael, Óman, Panama, Suður-Afríka og Bandaríkin. Engin Evrópuþjóð, en Ísrael vekur óneitanlega athygli, þar sem ferðamaður frá landinu er valdur af tveimur smitum hér á landi, þ.e. sínu eigin og síðan smitaði viðkomandi fararstjórann sinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Getum við hagað málum á annan hátt til að draga úr líkum á því að smitberi gangi laus og dreifi smiti?

Sem sérfræðingur í áhættustýringu, þá finnst mér áhugavert að ferðamaður frá landi með gríðarlegan fjölda nýrra smita síðustu 10 daga skuli fá að koma til landsins og fara strax í skipulagða ferð með fararstjóra. Síðustu 10 daga hefur þetta gildi fyrir Ísrael verið lægst 166 (þ.e. 18. júlí) og hæst 189 (þ.e. 23. og 24. júlí), en stóð í 40 fyrir 30 dögum.

Ég tel að auðvelt ætti að vera að stjórna smitáhættu mun betur, ef henni er ekki beinlínis boðið í heimsókn. Sú regla að ferðamenn sem koma frá lágáhættusvæðum þurfi ekki að fara í skimun, er að mínu mati góð. Mér finnst hins vegar rangt (eins og mér virðist framkvæmdin vera) að fyrir alla aðra dugi skimun við landamæri og sé sýnið neikvætt, þá mega flugfarþegar bara valsa um eins og ekkert sé. Nauðsynlegt er að stigskipta þessu meira og krefja alla sem koma frá hááhættusvæðum að fara skilyrðislaust í sóttkví í allt að 14 daga eftir komu til landsins. Þannig höldum við aftur af nýjum smitum.

Ég geri mér grein fyrir að enginn er vísvitandi að koma með smit til landsins. Fólk er meira að segja spurt alls konar spurninga til að meta líkur á smitum. Þrátt fyrir slíka varkárni, þá eru smit að berast og einmitt þess vegna þurfa íslensk yfirvöld að spyrja sig: Getum við hagað málum á annan hátt til að draga úr líkum á því að smitberi gangi laus og dreifi smiti?

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: