En auðvitað hegðar Sjálfstæðisflokksfólks sér ekki svona vegna þess að það sé heimskt eða vegna þess að það áttar sig ekki hvað er að gerast.
Gunnar Smári skrifar:
Það má skipta orkusögu Íslands í nokkra kafla.
I. Uppbygging og orkuskipti
Fyrsti kafli orkusögunnar er glæsilegur. Hitaveita Reykjavíkur er til dæmis stórkostleg afrek í orkuskiptum, sem hreinsaði ekki aðeins loftið í Reykjavík heldur sparaði gjaldeyri (engin kol) og lækkaði orkureikning íbúanna. Sama má segja um Rafmagnsveitu Reykjavíkur og rafmagnsveitur annarra sveitarfélaga. Með þeim varð ný tækni aflgjafi nýsköpunar og framfara. Allar þessar framfarir byggðu á félagslegum grunni, ákvarðanir voru teknar til að styrkja byggðarlögin og samfélagið, eignarhald í almannaeigu og afrakstrinum ætlað að birtast út í samfélaginu en ekki sem hagnaður fyrirtækjanna, sem færður yrði eigendunum sem arður.
II. Þróunarhjálp alþjóðavæðingarinnar
Næsti kafli orkusögunnar er tilraun til að nýta hagnaðardrifin alþjóðleg fyrirtæki og alþjóðastofnanir sem þjóna þeim, til að taka stór skref í uppbyggingu orkukerfisins. Alþjóðabankinn veitti lán á lágum vöxtum til byggingar Búrfellsvirkjunnar gegn því að alþjóðlegi auðhringurinn Alusuisse fengi orkuna á hagstæðu verði til að drífa áfram álverið í Straumsvík, auk ýmissa skattfríðinda. Íslendingar fengu út úr þessu nokkur hundruð störf sem skila myndu hag inn í samfélagið og síðan virkjun sem væri orðin skuldlaus um það leyti sem álverið væri úr sér gengið tæknilega og stæðist ekki lengur samkeppni við nýrri álver.
Þetta gekk ágætlega eftir, nema hvað stjórnvöld undirbjuggu aldrei hið óumflýjanlega; að álverið lokaði. Það var ekki til nein stefna um hvað yrði um starfsfólkið og engin stefna um hvað gera ætti við orkuna, aðeins excel-skjal í fjármálaráðuneytinu sem sýndi fram á óheyrilegan hagnað Landsvirkjunar ef hægt væri að hækka orkuverðið til úr sér genginna álvera. Einn ráðherrann varð ölvaður af þessu skjali og fór að lýsa því hvað hann ætlaði að gera við alla þessa fjármuni, stofna þjóðarsjóð og verja landið fyrir áföllum um ókomna tíð.
Eftir Straumsvík reyndu stjórnvöld að viðhalda þessari stefnu; að byggja virkjanir á samningum um lágt orkuverð til stóriðju þannig að hægt væri að greiða niður framkvæmdakostnað á löngum tíma. En eftir því sem samfélagið styrktist og laun hækkuðu var erfiðara að ná þessum samningum saman og stjórnvöld urðu sífellt að leggja meira fram í formi skattfríðinda, jafnvel beinna greiðslna til þeirra alþjóðlegu fyrirtækja sem féllust á að reisa iðnverin
III. Ofþensla og draumórar
Þessi stefna steyptist fram fyrir sig með Kárahnjúkavirkjun og samningnum við Alcoa á Reyðarfirði. Reikningsdæmið gekk ekki lengur upp; það var með engu móti hægt að réttlæta þessar miklu framkvæmdir með þeim fjölda starfa sem urðu til, stærð Kárahnjúkavirkjunnar var slík að fjárhagsáhætta Landsvirkjunar var óásættanleg og skattfríðindi Alcoa og önnur meðgjöf úr almannasjóðum svo tröllaukin að ómögulegt var að réttlæta hana fyrir opnum tjöldum. Aðgerðin öll varð því spillingardý; alþjóðlegum auðhring var færð á silfurfati stærsta framkvæmda Íslandssögunnar með tilheyrandi fórn náttúrugæða auk leyfis til að hlunnfara bæði ríki og sveitarfélög til eilífðarnóns. Hagur Íslands voru fáein hundruð störf á Austurlandi og risavirkjun, sem yrði skuldlaus seint á þessari öld, ef alþjóðlegi auðhringurinn myndi ekki loka verksmiðjunni áður, sem enn er líklegri niðurstaða.
Á meðan auðvelt er að réttlæta samninginn um Ísal í Straumsvík á sínum tíma með efnahagslegum áhrifum og uppbyggingu raforkukerfisins er ómögulegt að réttlæta Kárahnjúkavirkjun. Kostnaður og áhætta íslenska ríkisins og Landsvirkjunar að baki þeim störfum sem urðu til er út úr öllu korti, hægt hefði verið að búa til tíu sinnum fleiri störf með hluta af kostnaðinum og broti af áhættunni. Samningarnir við Alcoa voru með þeim hætti að ekki er hægt að una við þá, að alþjóðlegur auðhringur fái að starfa hér án þess að skila túskildingi til samfélagsins.
IV. Gullæði og glópska
Eftir Kárahnjúka var ljóst að aldrei yrði ráðist í jafn stjarnfræðilega heimska aðgerð. Ríkið og Landsvirkjun teygðu sig svo langt að ómögulegt var að ganga lengra til móts við næsta stóra viðsemjenda. Þá tók við orkustefna sem byggði á falskri hugmynd um orkuskort, að orkuskortur væri einskonar lögmál á frjálsum markaði og byggja þyrfti upp orkugeirann til að uppfylla linnulaus þörf hins markaðar fyrir orku. Auðvitað var þetta ekki raunin, það er enginn orkuskortur á Íslandi og verður ekki í sýnilegri framtíð. Það er frekar svo að þegar stóriðjuverin fara að loka komi í ljós að það er til of mikið af orku í landinu.
Til að keyra áfram stefnu um linnulausan orkuskort fóru hin opinberu orkufyrirtæki á stjá í leit að viðskiptavinum. Þau höfðu ekki sömu stöðu og Landsvirkjun og ríkið áður og gátu því ekki miðað á risavirkjanir, heldur leituðu uppi viðráðanlegri verkefni. Sem í reynd voru ekki í boði. Hugmyndir um eftirspurn eftir grænni orku Íslands reyndust blekking, sérstaklega eftir að orkufyrirtækin seldu vottorð sín og voru því á pappírunum að selja kjarnorku eða orku úr kolaverum. Þeir samstarfsaðilar sem fundust voru fjárfestingarsjóðir sem miðuðu á hámarksávöxtun á sem skemmstum tíma.
Þessir sjóður virka þannig að þeir búa til félag sem ætlar að reisa t.d. kísilmálmverksmiðju á Íslandi, ekki vegna þess að þeir séu sérhæfðir í slíku heldur vegna þess að þeir eru (eða telja sig vera) sérhæfða í að semja við opinbera aðila um svona verkefni. Félagið er þannig sett upp að eigendurnir, fjárfestingarsjóðurinn, fær umsýslugjald af öllum peningum sem renna í gegnum félagið og svo hluta af hagnaðinum, ef einhver verður. Sjóðurinn kemur því í raun ekki með neitt sé að borðinu, aðeins viljann til að setja upp fyrirtæki sem ætlað er að reka svona verksmiðju og getuna að ná svo góðum samningum við hið opinbera orkufyrirtæki og stjórnvöld að aðrir fjárfestar laðist að verkefninu. Og reynslan hefur sýnt þessir aðrir fjárfestar eru fyrst og síðast íslenskir lífeyrissjóðir og íslenskir bankar. Hin erlenda fjárfesting er því blekking. Alusuisse reisti álverið í Straumsvík fyrir eigið fé og lán sem fyrirtækið sjálft ábyrgðist. Hin nýju silikonver á Íslandi eru reist fyrir fé lífeyrissjóða og lánsfé úr íslenskum bönkum fyrst og fremst. Það má vera að erlent lánsfé sé þarna með, en það er þá næst upptökunum, fyrsta féð sem greitt verður út. Áhættan er íslensk meira og minna; orkuverið og fyrirtækið sem á að kaupa orkuna er í raun íslensk fjármögnun og áhætta. Í flestum tilfellum eru það hins vegar erlendir spilavítiskapítalistar sem settu dæmið upp, seldu íslenskum sjóðum og bönkum að fjárfesta í verkefni, sem var aldrei annað en tjöld utan um íslenska glópafjárfestingu. Þegar eitthvað kemur upp ganga hinir erlendu aðilar frá borði, þeir eru búnir að fá þóknun fyrir að hafa sett dæmið upp og þegar þeir sjá fram á að hagnaðarvonin við endann er engin orðin, er þeim fullkomlega sársaukalaust að yfirgefa verkefnið. Þeir lögðu ekkert til og tapa því engu. Þeir sem tapa er eigendur íslenskra lífeyrissjóð og banka, almenningur fyrst og fremst.
Hvað veldur þessu? Í fyrsta lagi er það svo að þrátt fyrir glæsta sögu um opinbera uppbyggingu innviða og atvinnu á Íslandi, ekki síst í orkugeiranum, þá er það nú viðtekin trú meðal ráðafólks að hið opinbera sé asni sem ekkert geti eða kunni en að hið svokallaða einkaframtak sé ætíð snjallt og geri aldrei neitt nema það sem er skynsamast og réttast. Og ýmsir ævintýramenn, t.d. hnerrimaðurinn í Helguvík og dularfullir fjórir Þjóðverjar á Bakka, nýta sér þessa heimsku og spila með stjórnvöld og opinbera sjóði, selja ráðafólki einhverjar fyrirætlanir, en fyrst og fremst þá hugmynd að aðeins þeir geti byggt eitthvað upp.
Þetta er sagan um naglasúpuna. Gesturinn þykist geta búið til súpu úr nagla en narrar svo allt úr úr búrskáp bóndakonunnar, sýður matarmikla kjötsúpu og étur hana sjálfur. Og konan mænir á hann af aðdáun, fullviss um að svona gæti hún aldrei gert sjálf. Í íslenskri orkusögu eru ýmsir ósvífnir lukkuriddarar gesturinn en bóndakonan eru hálfvitarnir í Sjálfstæðisflokknum og það stjórnmálafólk sem leiðir þá sífellt til valda.
En auðvitað hegðar Sjálfstæðisflokksfólks sér ekki svona vegna þess að það sé heimskt eða vegna þess að það áttar sig ekki hvað er að gerast. Það á kannski við um flest flokksfólk, en kjarninn sem ræður flokknum er með plan um að auðgast innan orkugeirans, stendur að uppkaupum á vatnsréttindum og er með plön um virkjanir um allt land. Á meðan viðskiptaarmurinn undirbýr innrás sína í orkugeirann breytir stjórnmálaarmurinn lögum til að minnka kostnað þeirra sem vilja virkja og flytur sem mest af honum yfir á almenning; t.d. varðandi tengingar inn á dreifikerfið, umhverfismat, einkarétt á auðlindum o.s.frv.
Og þar sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi stunda sín stjórnmál á heimavelli Sjálfstæðisflokksins, rennur þetta allt í gegn. Sumir flokkar fagna þessu vegna þess að þetta sé í takt við orkupakka Evrópusambandsins og hljóti þess vegna að vera til bóta, en aðrir sætta sig við þetta á þeim forsendum að ef stjórnmálafólk láti Sjálfstæðisflokknum eftir fjármál og atvinnuuppbyggingu fái það kannski að leggja eitthvað til varðandi formlega friðlýsingu náttúrusvæða sem auðvaldið ásælist ekki lengur. Það hefur snúið sér frá stórvirkjunum á hálendinu fyrir útlent auðvald og hefur nú aðeins áhuga á smávirkjunum í byggð fyrir íslenskt auðvald, fjárhagslega bakhjarla Sjálfstæðisflokksins.
Eftirmáli. Íslensk orkustefna í dag byggir á röð kenninga sem fá ekki staðið.
Það er rangt að það sé orkuskortur á Íslandi. Það er líklegra að við séum að sigla inn í tímabil offramboðs á orku.
Það er rangt að það sé hlutverk ríkisins að þjóna vilja einkafyrirtækja um atvinnuuppbyggingu. Saga okkar og allra þjóða sýnir að það er fyrir frumkvæði opinberra aðila að mestar framfarir urðu í atvinnu- og samfélagsuppbyggingu. Best lukkaða innviðauppbyggingin varð þegar ríki og sveitarfélög sáu um hana. Orkusaga Íslands byrjar á slíkum nótum og á því glæsilegt upphaf. Þegar stjórnvöld sneru sér að því að færa almannaeigur og almannasjóði til einkafyrirtækja breytist atvinnuuppbyggingin í spilavítiskapítalisma þar sem almenningur tapar á öllum borðum.
Það er rangt að með hlutafélaga-, markaðs- og einkavæðingu orkugeirans njóti almenningur lægra verðs eða meira öryggis. Með því að brjóta upp þau fyrirtæki sem almenningur byggði upp á síðustu öld var búið til ofvaxið kerfi á smáum markaði sem flækir aðeins hlutina og veikir ábyrgð; dregur úr getu til að raunverulegrar stefnumótunar. Hinum uppbrotnu fyrirtækjum er aðeins ætlað að þjóna stefnu einkafyrirtækja og er með því gert ófært um að byggja upp orkukerfið svo eitthvert vit er í.
Þetta er byggt á þeirri trú að hið opinbera eigi ekki að stefna að framtíð sem þjónar samfélaginu heldur eigi almannavaldið aðeins að þjóna einkafyrirtækjum, sem síðan eiga að færa okkur allra bestu framtíð. Þetta er náttúrlega margafsönnuð bábilja. En á henni rambar samfélagið okkar.
Það er kominn tími til að velta við borðum víxlarana í Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur og láta þessar almannastofnanir þjóna upprunalegu hlutverki sínu; að vera félagslegar stofnanir með samfélagsleg markmið. Finnum aftur þráðinn í orkusögu Íslands og tökum hann úr höndum braskaranna í Gamma eða þaðan af verri stöðum.
ps: Ég hengi þessi skrif við frétt af tapi lífeyrissjóð vegna lokunnar Bakka við Húsavík og spyr ykkur: Ef Húsvíkingar mættu ráða hvort þeir fengju aftur kvótann, sem var afrakstur þess sjávarútvegs sem íbúarnir byggðu upp á síðustu öld, eða þá verksmiðjuna á Bakka; hvort haldið þið að fólkið myndi velja? Orkustefnan er því ekki aðeins bara heimsk í sjálfu sér heldur ber hún með sér heimsku annara kerfa; ekki síst kvótakerfisins, sem hefur étið upp byggðir víða um land og komið traustum bæjarfélögum niður á hnén, svo þau eru orðin háð einhverjum lukkuriddurum sem hafa það fyrst og síðast að markmiði sínu að blóðmjólka opinbera sjóði almennings.