Neyðarhemillinn Birgir Ármannsson
Birgir er ómissandi maður.
Fá dæmi munu vera um þingmann sem hefur staðið sína plikt betur en Birgir Ármannsson. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti breytingum á stjórnarskránni, „lýðveldisstjórnarskránni“. Það er Mogginn líka.
Birgi hefur, með einni og sömu setningunni, tekist að draga allar hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni. Ár eftir ár eftir ár. Enn notar hann þessa gullnu setningu. „Sem kallar á frekari umræðu“. Þessi fáu orð eru flokknum hans Birgis ómetanleg. Í Mogga dagsins segir í viðtali við Birgi: „Hann segist persónulega vera fylgjandi slíkum breytingum en segir að í frumvarpinu megi finna tillögur að ýmsum fleiri breytingum sem hann telur kalla á frekari umræðu.“
Við lestur fréttarinnar er eflaust hlegið í Valhöll og Hádegismóum. Birgir stendur sig.
„Það að þetta fer í samráðsgátt felur í sér að það er verið að óska eftir hugmyndum og athugasemdum en felur ekki í sér á þessu stigi neina skuldbindingu flokkanna um að leggja fram frumvarp í þessa veru,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.
Birgir hefur verið flokknum og blaðinu frábær neyðarhemillinn. Gætir þess að hugmyndir annarra um veigamiklar breytingar drepist hægt, rólega en örugglega. Birgir er ómissandi maður.