Úti, laus úr ólinni, er talið líklegast að hann fari út af í hverri þeirri beygju sem hann kemur í og geti jafnvel líka farið út af beinu brautinni.
Það er dæmalaust gaman að fylgjast með angist Moggans vegna komandi forsetakosninga vestra. Óveðurrskýin hrannast upp í lífi Trump. Og hvað gera menn þá. Jú, það sem þeir kunna best. Davíð ritstjóri er manna reyndastur í þessu. Ef illa gengur með eigið framboð þá er greinilega ekki annað að gera en ráðast að andstæðingnum. Þetta er alþekkt og mikið notað. Hér heima sem erlendis. Kíkjum í Mogga Davíðs:
„Frambjóðandi demókrata, Joe Biden, hefur verið í felum mánuðum saman og er látið heita að þar sé um margra mánaða sóttkví að ræða. Keppikeflið er að halda Biden í byrgi sínu eins lengi og flokkurinn kemst upp með það.
Flokkurinn treystir sem sagt ekki frambjóðandanum sínum yfir þröskuld í orðsins fyllstu merkingu. Úti, laus úr ólinni, er talið líklegast að hann fari út af í hverri þeirri beygju sem hann kemur í og geti jafnvel líka farið út af beinu brautinni.
Flokkurinn hefur vissulega ástæður til að óttast það að „biden-bjálfastrikin“ muni snúa könnunum hratt við fái frambjóðandinn að ganga laus og segja eitthvað sem hefur ekki verið skrifað fyrir hann á gagnsæju ræðuspjöldin hans. En spyrja má flokkstemjarana: En takist ykkur að koma honum í Hvíta húsið, hvað þá? „Sá tími, á það vandamál,“ er svarið.
Kannski verða menn þá búnir að koma sér upp varaforseta sem má láta taka við.
Repúblikanar vilja hins vegar ólmir fá að eiga við Biden, þótt enginn „utanaðkomandi“ hafi fengið að spyrja hann. Þegar Biden kom fram í fyrradag drógu jafnvel helstu spunameistarar demókrata ekki dul á að hann hefði vissulega verið fullkomlega óáhugaverður, hefði haft lítið sem ekkert fram að færa og verið beinlínis leiðinlegur. „En,“ segja þeir, „það var ekki endilega vont. Fólkið í landinu er komið með upp í kok“ bæta þeir við, „og vill miklu fremur langar leiðindaþulur en hitt.“ Hvaða hitt? er þá spurt. „Forseta sem rýkur upp í morgunsárið eftir að hafa horft á yfirlit frétta á ótal stöðvum, flengjandi sér út með vafasömum fullyrðingum á netmiðla af ýmsu tagi, setjandi allt þjóðfélagið á annan endann. Þegar aðstoðarmenn hans og sérfræðingarnir loks vakna er reynt að vinda ofan af vitleysunni og róa þjóðfélagið svo það nái að kyngja kornflexinu og koma sér í vinnuna án þess að fara á taugum yfir dularfullum boðskap forsetans. Það eru langdregin leiðindi sem fólkið þráir á þessum tímapunkti hinnar trompuðu tilveru.“
Repúblikanar segjast aldrei áður hafa heyrt nokkurn frambjóðanda fá þann vitnisburð sinna eigin manna að aðalsmerki hans væru framúrskarandi leiðindi og það að hafa þess utan minna en ekkert fram að færa.“