- Advertisement -

Sýningaopnun: Allt sem sýnist – raunveruleiki á striga 1970-2020 og Jóhannes S. Kjarval: Hér heima

Mannlíf / Fimmtudag 25. júní kl. 20.00 verða opnaðar tvær sýningar í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýning á málverkum Jóhannesar Kjarvals af íslensku landslagi sem nefnist Hér heima og sýning á raunsæislegum málverkum átján íslenskra listamanna; Allt sem sýnist – raunveruleiki á striga 1970-2020. Sýningastjórar eru Edda Halldórsdóttir og Markús Þór Andrésson.  

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður ávarpar opnunargesti og Margrét M. Norðdahl, formaður Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða opnar sýninguna.

Sýningin Allt sem sýnist er sýning á málverkum og teikningum eftir listamenn sem hafa gert raunveruleikann að yrkisefni. Sýningin spannar hálfrar alda sögu íslenskra raunsæismálverka og átján listamenn eiga þar verk.

Yngsti listamaðurinn á sýningunni, Helena Margrét Jónsdóttir, útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands í fyrra og er til vitnis um það að áhugi yngri listamanna á handverki hefur eflst. Hún gefur hinum eldri ekkert eftir. Elstu verkin á sýningunni eru eftir Hring Jóhannesson, Erró og Eirík Smith – máluð á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Sýningin varpar ljósi á þann rauða þráð sem raunsæislegt stílbrigði er í listasögunni í hálfa öld, stundum vinsælt, stundum hallærislegt. Listamenn týna sér í handbragðinu og er sýningin kjörið tæki færi til að verlta fyrir sér aðferðafræði, viðfangsefnum og forsendum listamannanna hvort sem verkin tilheyra ljósmynda-, töfra- eða ofurraunsæi. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Listamennirnir eru Eggert Pétursson (1956), Eiríkur Smith (1925-2016), Erla S. Haraldsdóttir (1967), Erró (1932), Guðjón Ketilsson (1956), Gústav Geir Bollason (1966), Hallgrímur Helgason (1959), Helena Margrét Jónsdóttir (1996), Hlaðgerður Íris Björnsdóttir (1970), Hringur Jóhannesson (1932-1996), Karl Jóhann Jónsson (1968), Kristinn Guðbrandur Harðarson (1955), Ragnhildur Jóhannsdóttir (1977), Sara og Svanhildur Vilbergsdætur (1956 og 1964), Sigtryggur Bjarni Baldvinsson (1966), Þorri Hringsson (1966) og Þura – Þuríður Sigurðardóttir (1949).

Á Kjarvalssýningunni Hér heima verða bæði olíumálverk og teikningar, sem birta okkur landslag í þeim fjölmörgu birtingarmyndum sem Kjarval túlkaði. 
Verk frá því snemma á ferlinum sem hafa sjaldnar verið sýnd, og svo lykilverk eins og Skjaldbreiður í Grafningi og fleiri. 

Á sýningunni gefst gott tækifæri til að kynnast mörgum lykilverkum frá ferli listamannsins og fá innsýn í þróun landslagsverka hans.

Meðal verka sem eru á sýningunni er nýjasta Kjarvals-verkið í safneign Listasafns Reykjavíkur Svínahrauns-málverk sem safnið festi kaup á nýverið og hefur ekki verið sýnt lengi. Einnig verður á sýningunni málverkið Haustlitir á Snæfellsnesi sem hékk uppi í fundarsal þegar Nixon og Pompidou funduðu á Kjarvalsstöðum árið 1973 – og margar myndir voru teknar af þeim með þetta verk í bakgrunni. 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: