Alþingi Katrín Jakobsdóttir hóf umræðu við Bjarna Benediktsson, á Alþingi í gær, með að vitna til viðtals við Magnús Pétursson ríkissáttasemjara. Hún vísaði til viðtals við sáttasemjara. Hún sagði hann hafa bent á að stór deilumál í samfélaginu hafi áhrif á gang kjaraviðræðna. Katrín vitnaði orðrétt til Magnúsar; „…sem ég er alveg sannfærður um að hefur áhrif á stöðu kjaraviðræðna…“
Að því loknu sagði Katrín: „Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann telji um þessi orð ríkissáttasemjara sem segir í raun að það sé hin pólitísku átök sem snúast um auðlindirnar. Ég get bara þýtt það á mannamál: Það snýst um veiðigjöldin og lækkun þeirra, það snýst um orkuskattinn, það snýst um það hvernig við tökum gjald af þeim sem nýta auðlindirnar, hvernig við skilum því til almennings.“
Kjarasamningar ekki bara reikningsdæmi
Bjarni sagði meðal annars að auðlindirnar hafi aldrei skilað meiru til samfélagsins: „…það kerfi um stjórn fiskveiða sem við höfum tryggir hámarksverðmætauppbyggingu auðlindarinnar. Við sjáum það til dæmis á vísitölu Hafrannsóknarstofnunar um stærð þorskstofnsins. Við höfum aldrei í Íslandssögunni haft meiri arð beint og óbeint af nýtingu orkuauðlindanna í landinu. Aldrei.“
Og Bjarni hélt áfram: „Talandi um sátt. Hvað getur ríkisstjórnin gert til þess að skapa meiri sanngirni svona almennt í þjóðfélaginu? Ja, þessi ríkisstjórn greip til þess að skattleggja fjármálafyrirtækin langt umfram það sem fyrri ríkisstjórn gerði þannig að skattar á fjármálafyrirtæki, þar með talið slitabú, skila núna 38 milljörðum á ári umfram það sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Setjum það í samhengi við raforkuskattinn sem fyrri ríkisstjórn sagði að yrði tímabundinn skattur og hann er að renna út núna um næstu áramót. Hann er upp á tæpa tvo milljarða. Það þarf um 20 ár af slíkum skatti til þess að ná upp í bankaskattinn sem þessi ríkisstjórn lagði á og hann er tekinn á hverju ári.“
„…ríkissáttasemjari sagði það hreint og klárt að samningar væru ekki reikningsdæmi nema að hluta til, að þeir snerust líka um hvað þætti sanngjarnt í samfélaginu. Það eru þessi pólitísku áitamál sem ég nefni,“ sagði Kartrín.
Aldrei meiri jöfnuður?
Katrín spurði Bjarna meðal annars; „…út í misskiptingu eigna í samfélaginu, hvort honum þætti það eðlilegt að ríkustu 10% ættu 70% af auðnum í samfélaginu. Hvort hann teldi virkilega að jöfnuðurinn væri orðinn of mikill. Ég er nokkuð sannfærð um að fólkinu sem veitir okkur þau völd að sitja hér, fólkinu sem sinnir sínum daglegu störfum úti í samfélaginu, finnst ekki þessi jöfnuður orðinn of mikill. Það er hluti af þeirri ólgu sem er úti í samfélaginu og það eru þær kröfur sem fólk setur hér fram í ræðu og riti, af því að eins og ríkissáttasemjari segir, kjarasamningar eru ekki reikningsdæmi nema að hluta til. Það skiptir máli að skapa sátt um hvernig við skiptum gæðunum,“ sagði Katrín.