Skoðun Ritstjóri Morgunblaðsins skrifar í Staksteina dagsins að keppt sé um digurbarkann.
„Látúnsbarkinn hét viðurkenning, sem eitt sinn var veitt. Nú mætti ætla að hafin væri barátta um digurbarkann.
Í ályktun stéttarfélagsins Framsýnar í vikunni segir að það sé »með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins vilji viðhalda fátækt í landinu«.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir SA sömuleiðis fyrir að neita að ræða kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í þeirri erfiðu kjaradeilu sem nú er uppi: »Afneitun af þessu tagi ber vott um takmörkuð veruleikatengsl og herðir aðeins hnútinn sem að þarf að leysa.«
Raunin er að málsvarar launafólks hafa riðið á vaðið þegar svo ber við að öll markmið sem sett voru í samningunum, 2013 hafa staðist og horfur í efnahagsmálum eru bjartari en um langt skeið, með það að markmiði að gera það allt að engu.
Í raun væri nær að spyrja forustu Framsýnar hvort hennar markmið sé að viðhalda fátækt í landinu. Kjarabaráttan núna snýst nefnilega ekki fyrst og fremst um lægstu launin, en verði gengið að kröfum stéttarfélaganna munu þeir, sem lægstu launin hafa, verða verst úti.
Sömuleiðis mætti spyrja hvort miðstjórn ASÍ hafi misst öll tengsl við veruleikann með því að fara fram með þeim hætti, sem gert er.
Greint verður frá því síðar hver hlýtur digurbarkann í ár,“ segir í Staksteinum Morgunblaðsins. Þá er bara spurt, veitir Mogginn digurbarkann?