Bandarísk stjórnmálastétt er gjörspillt, stjórnað af hergagnafyrirtækjum og öðrum fjármálaöflum.
Vilhelm G. Kristinsson skrifar:
Bresk stjórnvöld virðast nú ætla að nota kórónavírusinn sem skálkaskjól til að slaka á ýmsum fyrirætlunum um ráðstafanir vegna Brexit. Ráðstöfunum sem margir töldu hið mesta óráð, en stjórnin hélt til streitu þar til nú í pópúlisma sínum.
Breskt samfélag virðist á svipaðri hnignandi vegferð og hið bandaríska á mjög mörgum sviðum. Þetta hefur komið æ betur í ljós á síðustu misserum, eins og kunnugt er af fréttum.
Hvað Bandaríkin áhrærir er mikill misskilningur, sem vart verður hjá æði mörgum, að kenna garminum Trump, þótt skelfilegur sé, um ósómann vestra. Bandarískt samfélag er gegnumrotið og var löngu áður en Trump kom fram á sjónarsviðið. Á undan honum var í embætti forseti sem ruddist inn í fleiri sjálfstæð og fullvalda ríki með vopnavaldi en nokkur annar í sögu Bandaríkjanna.
Bandarísk stjórnmálastétt er gjörspillt, stjórnað af hergagnafyrirtækjum og öðrum fjármálaöflum, misskipting auðs og gæða yfirþyrmandi og lýðræði í skötulíki, m.a. vegna óréttlátrar kosningalöggjafar. Dómsvald undir hælnum á spilltum stjórnmálamönnum og peningavaldinu, að ekki sé minnst á hræðilegt almennt heilbrigðiskerfi og hnignun innviða. Skuldir bandaríska ríkisins eru heimsmet, svo og fjárframlög tíl hermála.
Trump er eiginlega táknmynd þessa rotnandi heimsveldis sem nú rambar á barmi tortímingar og enginn leiðtogi í augsýn sem gæti reynt að breyta til betri vegar. En dauðateygjurnar gætu reynst heiminum dýrkeyptar. Sært og deyjandi dýr berst um á hæl og hnakka. Það er mikilla tíðinda að vænta í alþjóðapólitíkinni á næstu árum.